150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur. Einhvers staðar stendur að hugur og hönd verði að fara saman. Það á svo sannarlega við um geðheilbrigðismálin sem við erum að tala um hér í dag. Við virkum engan veginn ef okkur líður það illa andlega að við sjáum varla fram á næsta dag. Hvers vegna í veröldinni skyldi standa á því að við ávísum sennilega mest af þunglyndislyfjum meðal siðmenntaðra þjóða, meðal vestrænna ríkja, gott ef ekki bara á allri jörðinni? Hvers vegna erum við með svona langa biðlista eftir því að börnin okkar fái greiningu? Hvers vegna leyfum við það að börnunum okkar líði illa svona rosalega lengi áður en við stígum inn og hjálpum þeim? Hvers vegna erum við ekki með sálfræðimeðferð og alls konar geðstuðning við unga fólkið okkar, við framtíðina, við grasrót þessa lands? Kjörtímabil eftir kjörtímabil vex vandinn og stækkar. Þeim fjölgar sem eiga um sárt að binda hvað varðar þennan málaflokk. Hér tölum við um alls konar kassalagaðar, innrammaðar staðreyndatölur og annað slíkt þegar ég vildi gjarnan að hér væri sagt: Jú, við viljum og skulum, við getum og ætlum að stokka þetta upp. Við neitum að samþykkja að þetta sé eðlilegt í samfélagi okkar í dag. Börnin okkar eru framtíðin og við eigum aldrei að láta þau bíða eftir því að fá hjálp þegar þau bíða eftir greiningu eða hvað sem er, það getur orðið til þess að þeirra bíði lítið annað en það sem við viljum forðast, að þau fari út af brautinni og leiti í efni sem við viljum síst að þau innbyrði.