150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

geðheilbrigðisvandi ungs fólks.

[16:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að efna til þessarar umræðu og hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna. Ég tel að geðræktar- og forvarnastarf verði að hefjast mjög snemma. Í nýlegri skýrslu Sigrúnar Daníelsdóttur, verkefnisstjóra geðræktar hjá embætti landlæknis, kemur fram að félags- og tilfinningafærni er ekki kennd í skólum í nægilega miklum mæli og ekki byrjað nægilega snemma þar sem það er gert. Með því að kenna þá þætti væri væntanlega mögulegt að ná meiri tökum á geðrænum vanda ungs fólks en við gerum í dag. Hv. þingmönnum til upplýsingar kemur fram í viðtali við téða Sigrúnu á visir.is í síðustu viku, með leyfi forseta:

„Hvað er félags- og tilfinningafærni? Það er þekking og færni í því að þekkja og skilja eigin tilfinningar, þekkja og skilja tilfinningar annarra, geta sett sig í spor annarra, geta átt farsæl samskipti við aðra, kunna að mynda og halda vináttusamböndum, kunna að leysa ágreining á farsælan hátt, kunna að taka ábyrgar ákvarðanir.“

Þetta er býsna hnitmiðað, hvað við eigum að vera að kenna börnunum okkar til þess að þau fái það veganesti sem við viljum að þau fari með út í lífið. Ég tel að skólinn, kannski sérstaklega grunn- og leikskólinn, eigi að vera sá vettvangur. Þar náum við til nánast allra barna í landinu og við höfum dæmi um að forvarnastarf á þeim vettvangi hefur einmitt skilað gríðarlega góðum (Forseti hringir.) árangri í mörgum þáttum, til að mynda í reykingum og áfengisnotkun ungmenna o.s.frv. Þarna eigum við að byrja.