150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[17:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekkert á því. Mér finnst þær skrýtnar þessar hugleiðingar um hvað gerist ef rammasamningurinn verði ekki endurskoðaður. Það stendur yfir vinna við það og ég sé enga ástæðu til annars en að henni ljúki og ef annar samningsaðili vill ekki halda henni áfram þá er það bara niðurstaðan. En ég verð hins vegar að leiðrétta mig, stuðningurinn við þingsályktunina með aðgerðaáætluninni var miklu dýpri og styrkari, hann var 54 atkvæði samhljóða. Ég segi bara alveg eins og er að mér þætti það kyndugt ef hinn samningsaðilinn vill ekki virða þann sterka og ríka vilja hjá Alþingi Íslendinga að taka lög um Framleiðnisjóðinn upp, sem eru að stofni til frá árinu 1966, löngu úr sér gengin og ekki í takt við það sem er að gerast. Ég ætla bara að nefna eitt atriði sem er í vinnslu sem er mótun matvælastefnu fyrir Ísland, þverpólitísk vinna á vegum forsætisráðherra. Eigum við ekki að taka eitthvert tillit til þess sem þar er inni og búa okkur undir þá breyttu sýn og framtíð? Jú, ég segi það. En það kann að vera að einhverjir sjái tækifæri í því að halda þessu gamla systemi gangandi óbreyttu. Ég er ekki á þeim stað. Ég trúi því ekki að menn ætli sér að fara þangað. Ég bara trúi því ekki. Ef við þurfum á einhverju að halda í þessu þá er það að geta lagað starfsemi okkar og áherslur að sjónarmiðum og áherslum stjórnvalda sem uppi eru og í forgrunni á hverjum tíma. Ég fagna því að eiga liðsinni í 54 þingmönnum við það verk að endurgera með hvaða hætti við vinnum úr þessum fjármunum.