150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ábendinguna. Jú, ég er ánægður með að byggt sé upp kerfi sem sér til þess að þeir sem eiga við fötlun að stríða, hvort sem það er lesblinda eða annað, eigi sinn möguleika. Við erum að tala um menntamál og ég vil benda þar á iðnnámið. Við erum svolítið föst í gömlu námi og ég bara tek dæmi af mínum börnum, ég hef lært af þeim hvað varðar tölvugetu og tölvuáhuga, og mér finnst við vera föst í kerfi sem ætlar að setja alla í beina línu í bóknám. Okkur vantar að einfalda og auðvelda þeim sem hafa hæfileika á ákveðnum sviðum að einbeita sér að því sviði og komast eins langt og þeir mögulega geta. En til þess þurfa þeir oft að fá tækifæri. Kerfið þarf að laga sig að þeim en þeir geta kannski ekki lagað sig að kerfinu vegna þess að þá skortir hæfileika, eru lesblindir eða annað, til að takast á við allt menntakerfið eins og það leggur sig. Til þess þyrftum við t.d. styrki á ákveðnum sviðum, í tölvugreinum, svo að viðkomandi geti einbeitt sér að því ákveðna sviði og fái lán og aðstöðu til að stunda námið. Þarna höfum við kannski hæfileikaríkt fólk sem við erum ekki að nýta í dag.