150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna því að við séum að ræða heildarendurskoðun á styrkjakerfi íslenskra námsmanna. Löngu tímabært verkefni. Það kerfi sem við erum að kveðja, verði þetta frumvarp að lögum, er gengið sér til húðar fyrir löngu. Það hefur verið stagbætt í gegnum árin og einhvern veginn gengið áfram. En stundum þarf bara að ýta út gömlum lögum og taka í notkun ný frá grunni. Það þýðir að allsherjar- og menntamálanefnd á mikið verk fyrir höndum. Þetta kerfi er engin smásmíði. En það er mjög spennandi verkefni vegna þess að fyrir okkur liggur heildarsýn á kerfið og við getum greint alveg ofan í kjölinn hvernig það snertir við ólíkum geirum samfélagsins, hvernig það sinnir því hlutverki sem námslánakerfi á að gera, að gera fólki kleift að stunda nám við hæfi, óháð efnahag.

Ég held að ég sé ekkert að særa neinn þótt ég segi að það kerfi sem við erum að kveðja sé brostið. Við höfum svo sem rætt það áður hér í sal í tengslum við fjármögnun LÍN, bæði í sambandi við fjármálaáætlun og fjárlög, að sú staða sem LÍN stendur frammi fyrir, sem er mjög óvenjuleg, að þar safnist upp peningar, að ríkisframlögin sem eru áætluð inn í sjóðinn ár eftir ár ekki bara dugi heldur gott betur þannig að það liggi á lager fleiri milljarðar, endurspeglar að kerfið hefur ekki verið að virka vegna þess að lánþegum hefur verið að fækka. Þetta er öfugþróun sem við náum vonandi að snúa við með nýju kerfi.

Hér var rætt fyrr í dag hvað framtíðin bæri í skauti sér og fjórða iðnbyltingin barst í tal. Allt er þetta mikilli óvissu háð. En ég held að það sé eitt sem við getum slegið föstu. Fjórða iðnbyltingin gerir þær kröfur á hið opinbera að það fjárfesti í menntun. Það fjárfesti í því að fólk geti sótt sér nám við hæfi, að fólk hafi efni á því að fara í nám, að það nám sé til staðar, að skólarnir séu öflugir og sterkir og að þeir skólar geti jafnframt sinnt grunnrannsóknum sem verða síðan fóðrið fyrir nýsköpun fjórðu iðnbyltingarinnar. Þannig að það að styrkja námslánakerfið er eitt púsl í þeirri stóru mynd sem þarf að teikna sig upp til þess að við getum tekist á við fjórðu iðnbyltinguna og framtíðina.

Það að sjóðurinn hafi á undanförnum árum safnað upp eigin fé skapar óvenjulegt tækifæri sem er mjög ánægjulegt að sé verið að nýta hér til að rífa þann plástur af sem ábyrgðarmannakerfið er. Það er fjárhagslegt högg sem ef ég man rétt hljóðar upp á rúma 3 milljarða við gildistöku og er ekki sjálfsagt að ríkið taki á sig rétt sisvona, nema vegna þess að það hefur safnast í þennan sjóð, þó svo að sú uppsöfnun fjármuna sé frekar birtingarmynd á óheilbrigðu kerfi en eitthvað sem við ættum að fagna í sjálfu sér.

Þá er afar jákvætt að innleiða eigi námsstyrki að norrænni fyrirmynd, enda var það nú eitt meginmarkmiðið með þessari heildarendurskoðun. Við þurfum að skoða í allsherjar- og menntamálanefnd hvort sú útfærsla sem hér er lögð fram nái þeim jafnvægispunkti á milli þess að vera gulrót og svipa sem best virkar. Það á að vera fólki í hag að ljúka námi eins skjótt og það getur, ræður við og vill og hefur þar að auki jákvæð áhrif fyrir menntakerfið sjálft, ríkið, sem fær þarna svigrúm innan menntakerfisins til að þróa aðra þætti en að halda fólki lengi í framhaldsnámi. Eins og ég segi er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða í nefndinni. Þá er mjög jákvætt að barnastyrkir séu innleiddir en þar endurspeglast líka kannski einna best sérstaða íslenska menntakerfisins og háskólakerfisins sem er nefnt í greinargerð með frumvarpinu að hafi t.d. verið dregin fram í Eurostudent-könnuninni. Þessi sérstaða er sú að íslenskir stúdentar eru gjarnan eldri en aðrir evrópskir stúdentar. Þeir eru líklegri til að vera með börn á framfæri. Þeir eru í allt annarri félagslegri stöðu en meðalstúdentinn á meginlandi Evrópu. Því er gott að frumvarpið taki tillit til þeirrar sérstöðu.

Þetta leiðir líka hugann að því hvort allsherjar- og menntamálanefnd þyrfti að leggjast í frekari greiningu á ólíkum hópum og hvernig kerfið snertir við þeim. Ég nefni t.d. ólíka stöðu kynjanna. Það er vikið að henni í greinargerð með frumvarpinu en ólík staða kynjanna í samfélaginu birtist t.d. í því að konur eru fjölmennar í þeim hópi sem kemur seinna til náms, kannski að loknum barneignum eða alla vega á öðrum fasa lífs en karlar. Þetta eru þar að auki konur, eins og nefnt hefur verið í fyrri ræðum, sem eru oft úr stéttum þar sem laun eru lægri en gengur og gerist. Við þurfum að skoða í nefndinni hvernig þetta lítur út og gæta þess að við náum utan um sem flesta ólíka hópa, ekki bara einhvern staðalstúdent sem passar í einfaldasta mótið heldur að við náum utan um breiddina og gerum sem flestum kleift að njóta sín innan kerfisins.

Svo að ég segi núna í raun hið gagnstæða þá þurfum við líka að skoða staðalstúdentinn aðeins betur vegna þess að það sem mest hefur verið lyft upp í kringum þetta frumvarp eru tilvik sem mætti kannski nefna jaðartilvik. Það er hún Sigga á Blönduósi með börnin þrjú sem ráðherrann nefndi eða stúdentar sem þurfa aukinn stuðning vegna stöðu sinnar. Meginþorri stúdenta er hins vegar fólk sem er nýlega útskrifað úr framhaldsskóla, býr annaðhvort í leiguhúsnæði, gjarnan á vegum stúdentahreyfingarinnar, eða í foreldrahúsum. Því fólki er aðallega umhugað um framfærsluna sjálfa. Eins og var rætt fyrr í umræðunni hefur hún verið skoðuð ítrekað á síðustu árum en líkt og kemur fram í umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands skiptir hún alveg gríðarlegu máli. Það er eitthvað sem við þurfum að líta til í umfjöllun nefndarinnar.

Síðan held ég að við megum staldra við það markmið frumvarpsins að lánahluti kerfisins skuli standa að fullu undir sér á hverjum tíma. Á það hefur verið bent að með því sé verið að velta áhættu af verðbólguskotum eða óhagstæðari lánveitingum til hins opinbera yfir á lántakendur en við getum alveg rætt þetta almennar án þess að skoða einhverjar hagfræðilegar hryllingsmyndir af aukinni verðbólgu og spurt okkur: Er ekki allt í lagi að kosta einhverju til kerfisins og sýna aukinn stuðning í verki með veski hins opinbera frekar en að námslánakerfið standi undir sjálfu sér? Er ekki allt í lagi að í sjóðinn sem námsmenn sækja í sé settur meiri peningur frá ríkinu frekar en að hann sé nánast gegnumstreymissjóður lántakenda sem sækja á lánahlutann?

Eins þurfum við að skoða þau víti sem ég tel að beri að varast frá fyrri frumvörpum. Ég er ekki jafn sannfærður um að t.d. það frumvarp sem Illugi Gunnarsson lagði fram á sínum tíma hafi verið til bóta eins og ég heyrði hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur nefna í ræðu fyrr í dag. Það sem háði því frumvarpi sérstaklega var að þar var í rauninni aðeins verið að færa til stuðning innan kerfis. Þar voru þeir sem þurftu að taka lán látnir greiða niður styrkina til þeirra sem mætti segja að hefðu ekki þurft á þeim að halda. Við þurfum að gæta þess að þær tilfærslur sem eiga sér stað í frumvarpinu sem við höfum í höndunum forðist þá pytti og að kerfið sem við byggjum upp sé er sanngjarnt.