150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra enn og aftur fyrir þetta góða frumvarp. Einhverra hluta vegna hefur hún misskilið mig og talið mig hreinlega efast um gildi þess, mannúð þess og skaðaminnkun. Það er alrangt. Það hef ég ekki gert. Hins vegar horfi ég á það þegar við erum að stíga svona stórt skref að það er ekki einungis verið að tala um skaðaminnkun og að aðstoða veikustu sprautufíkla við að fá hreinar nálar og hjálpa þeim við það sem þeir þurfa á hjálp að halda við, heldur er þetta mun metnaðarfyllra og mun halda utan um þá félagslega, aðstoða þá með fatnað og annað slíkt, þannig að ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég vona nú að hæstv. heilbrigðisráðherra þurfi ekki að taka orð mín öðruvísi þegar ég hef í raun og veru áhyggjur af því að ekki hafi verið haft nógu mikið samráð í svona stóru mikilvægu máli, samráð við sveitarfélögin, samráð við alla hlutaðeigandi, samráð við lögreglu. Lögreglan hafði gert athugasemd. Það var t.d. ekki haft samráð við Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa eftir að málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar í vor. Þó höfðu þeir óskað eftir því. Svo kemur líka í ljós eins og við vitum að sprautufíklar á Íslandi sprauta sig með örvandi lyfjum en ekki sljóvgandi lyfjum eins og heróíni, og eins og almennt er gert í löndunum sem við berum okkur saman við. Þau sprautulyf sem fíklarnir nota eru amfetamín og slík lyf. Þau virka í skemmri tíma en sljóvgandi lyf. Þá þarf viðkomandi eðli málsins samkvæmt að sprauta sig oftar, stundum jafnvel á klukkutíma fresti, tjá mér vímuefnaráðgjafar og sérfræðingar, og a.m.k. á tveggja tíma fresti, sem er ólíkt því sem gerist erlendis með heróínsjúklinga. Þeir sprauta sig að meðaltali tvisvar á dag.

Þess vegna gætu okkar notendur þurft að dvelja langtímum saman nálægt þessum rýmum, svo framarlega sem þeir vilja virkilega og þurfa að nýta sér úrræðið. Hvað gerum við þá?

Ákvæði um að sveitarfélög og lögregla geti gert með sér samkomulag um að lögregla grípi ekki til aðgerða finnst mér mjög sérstakt sem lögfræðingi. Lögregla og ríkissaksóknari bentu á, þegar frumvarpið fór í umsagnarferli í vor, að það þyrfti skýra lagaheimild til að semja um slíkt. Það er ekki ljóst hvort ákvæðið uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíkrar heimildar. Það á ekki að vera samkomulagsatriði hvenær lögregla framfylgir lögum. Það er okkar að gefa þeim þann ramma sem hún á að vinna eftir. Ef við komum með einhverja sérreglu, þá eigum við að gera það. Ég tel að í þessu tilviki sé engin reglugerð ráðherra eða neitt sem eigi að toppa gildandi rétt heldur verðum við að koma með sérreglur til að halda utan um þetta skaðaminnkunarúrræði. Ég trúi því að núna í meðförum málsins höldum við öll utan um það og munum vanda til verka, sérstaklega í hv. velferðarnefnd. Síðan eigum við náttúrlega eftir að taka samtalið. Ég býst við því, a.m.k. ber ég þá von í brjósti, að ráðherra skoði það betur að við komum með þær sérreglur sem við þurfum lögum samkvæmt, til að tryggja að framkvæmdin verði eins og að er stefnt og markmiðunum verði náð án þess að það skapi einhverja óvissu.

Við erum að tala um skaðaminnkun. Þetta er risastórt skref. Mér finnst það vera þess eðlis að það liggi í hlutarins eðli að við séum að ganga í þá átt, eins og ég sagði áðan, að afglæpavæða neysluskammta, sem er bara í orðsins fyllstu merkingu algerlega sjálfsagður hlutur, finnst mér. Mér finnst alveg með ólíkindum að vera að elta uppi einstakling með eina jónu og kæra hann fyrir eitthvað. Það er eiginlega fáránlegt. Ég trúi því og mér sýnist það vera vilji hæstv. heilbrigðisráðherra og að hún stefni í þá átt og ég vona sannarlega að það sé rétt skilið hjá mér.

Ég ætla ekki að hafa þetta svo mjög langt en hins vegar langar mig til að benda á að það er líka skaðaminnkun í Naloxone, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á áðan og ég þakka henni fyrir hennar góðu ræðu. Þá langar mig, með leyfi forseta, aðeins að segja frá Naloxone. Hvað er það? Ekki vita allir hvað það er. Hæstv. heilbrigðisráðherra veit það vafalaust. Naloxone er lyf, nefúði sem notaður er til að endurlífga fólk sem hefur ofskammtað af ópíóíðalyfjum eins og t.d. Oxycontin, Contalgin og Fentanyl. Núna er Naloxone eingöngu aðgengilegt á heilbrigðisstofnunum og í sjúkrabifreiðum og öðru slíku. En það kemur hérna fram að það fólk sem er yfirleitt fyrst á vettvang, sjúkrabílarnir og forsvarsmenn Frú Ragnheiðar, telja að það eigi að gefa fíklum lyfið líka og þjálfa þá í notkun þess vegna þess að þeir eru oft að neyta efnanna saman og hver einasta mínúta skiptir máli. Naloxone hefur ekki verið talið vera lyf sem verði misnotað. Það orsakar ekkert sem ætti að vera hættulegra en nákvæmlega það sem einstaklingurinn er að nota, alls ekki, þvert á móti. Þarna getum við líka hugsað pínulítið hvort sé ekki ástæða til þess að hlusta á forsvarsmenn og starfsmenn Frú Ragnheiðar sem bentu á að þetta væri mikilvægt og að við gætum kannski bjargað mannslífum. Fyrstu viðbrögð skipta rosalega miklu máli. Endurlífgun með Naloxone getur skipt sköpum meðan er verið að koma einstaklingnum undir læknishendur, þangað til að sjúkrabíllinn kemur. Mér þætti vænt um ef það væri líka á döfinni að taka tillit til þess.

Hvað sem öðru líður hvet ég ráðherrann til dáða. Við vitum að við gætum verið með ýmsar gerðir skaðaminnkunar gagnvart mörgum öðrum. Við getum verið með forvarnir og við getum komið í veg fyrir það að við fjölgum fárveikum sprautufíklum. Við gætum komið í veg fyrir að hér séu yfir 700 einstaklingar í bið eftir því að fá fyrstu hjálp inni á sjúkrahúsi til að afeitra sig. Við getum líka tekið utan um þetta fólk og gefið því betra líf þegar það kemur út í samfélagið á ný, tekið utan um það og látið því finnast það vera einhvers virði, að það sé gripið en ekki að það lendi síðan aftur í að vera númer 703 eða 704 í röðinni. Það er á engan hátt sem ég mæli þessu í mót eða er andsnúin því að við sýnum fárveikum sprautufíklum mannúð eða séum með skaðaminnkandi úrræði.

Ég heyri líka, svo ég bæti því við, að sveitarfélögin hafi nú bara fórnað höndum og skilji ekkert hvað sé átt við með því að setja þetta í fangið á þeim. Þau segjast ekki hafa neina peninga til að sjá um það. En ég geri mér líka grein fyrir því að líklega mun það nú ekki vera stóra málið því að stærsti kjarninn er jú hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hugsa að lítil sveitarfélög úti á landi séu almennt ekki í þeirri stöðu að þurfa að hugsa um slíkt og ef svo er trúi ég því að hæstv. heilbrigðisráðherra taki bara á því þegar þar að kemur og vinni úr því. Til þess er nú leikurinn gerður.

Hvað sem öðru líður sendi ég bara bjartsýni og bros og baráttukveðjur til hæstv. heilbrigðisráðherra og segi bara takk aftur og ég er sannarlega alls ekki á móti þessu þótt ég sé að reyna að vera skynsöm og segja: Fyrst við erum að þessu, gerum þetta þá almennilega þannig að það sé hafið yfir allan vafa og engin hártogun eigi eftir að koma í veg fyrir að þetta virki vel.