150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

brottvísun barnshafandi konu.

[15:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða mál þessarar albönsku konu sem var vísað úr landi, komin 36 vikur á leið. Ég ætla að leyfa mér að tala um þetta einstaka mál vegna þess að ríkislögreglustjóri og Útlendingastofnun hafa tjáð sig út á við um það og raunar ráðherra líka. Ég tel því ekkert óeðlilegt að við ræðum þau mál hér. Það hefur komið fram, virðulegi forseti, að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins setur þau viðmið að konur í áhættumeðgöngu skuli ekki fljúga eftir 32. viku meðgöngu. Þetta er sama heilsugæsla og Útlendingastofnun ber fyrir sig að hafi gefið þeim leyfi til að flytja hana nauðuga úr landi, sama heilsugæslustofnunin.

Í Kastljósi gærdagsins sagði settur forstjóri Útlendingastofnunar að þau gætu ekki sett sig í spor þessa fólks en þau virði eftir sem áður allan rétt. Þau svör sem ráðherra segist hafa fengið eru á þann veg að öllum reglum hafi verið fylgt í þessu máli.

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að þessi kona var í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sá hópur hælisleitenda nýtur sérstakrar verndar, m.a. skal leitast eftir því að við mál þeirra vinni starfsmaður með viðeigandi sérþekkingu eða reynslu, mögulega einhver sem veit að konur í áhættumeðgöngu ættu ekki að fara í flug eftir 32. viku meðgöngu. Ég vil spyrja ráðherra: Þýðir eitthvað að skýla sér á bak við verklag þegar þessar staðreyndir liggja fyrir? Ég vil biðja ráðherra, öfugt við hæstv. ráðherra, öfugt við settan forstjóra Útlendingastofnunar, um að setja sig í spor þessarar fjölskyldu. Ef kona nákomin henni væri komin 36 vikur á leið í áhættumeðgöngu og flytja ætti hana nauðuga úr landi í 19 tíma ferðalag með tilheyrandi kvíðaálagi og streitu, myndi hún segja að stoðdeild ríkislögreglustjóra hefði farið varlega? Við vitum að hæstv. ráðherra hefur sagt, með leyfi forseta: „Við viljum öll fara varlega, sérstaklega þegar um er að ræða þungaðar mæður, börn þeirra, fædd eða ófædd.“