150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Herra forseti. Loksins, loksins, ætla ég að leyfa mér að segja, höfum við náð þeim áfanga að það er búið að ná saman um höfuðborgarpakka, um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór ágætlega yfir forsöguna og hvernig hefur skort á fé inn á þetta svæði. Ég held að við hv. þingmaður séum hoppandi kát yfir því að geta staðið hér og ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu þar sem við höfum margoft talað um þetta hér. Ég held reyndar að hæstv. samgönguráðherra, þó að hann sé stóískur maður, sé hoppandi kátur líka inni í sér.

Hvar erum við stödd, forseti? Sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið höndum saman um sameiginlega sýn í samgöngumálum svæðisins við ríkisvaldið. Þetta er gríðarstór áfangi. Hæstv. ráðherra málaflokksins má vera stoltur af því að hafa komið að því að leiða þennan áfanga hingað.

Er vinnan búin? Nei. Annað væri nú. Mér þykir miður að heyra hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar láta eins og það að rúmir 100 milljarðar inn á þetta svæði á næstu 15 árum séu eitthvað sérstaklega mikið. Mér finnst ekki verið að tala mjög fallega til íbúa þessa svæðis eða okkar hér sem vinnum og störfum á þessu svæði. Ætlum við að festa okkur í smáatriðinu um hvernig þetta verður eða hitt eða ætlum við kannski bara öll að taka höndum saman, koma okkur áfram á þessa leið? Meinum við eitthvað með því þegar við erum að tala um loftslagsaðgerðir? Það væri ágætt ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar svöruðu því. Hvernig ætlum við að fara að takast á við þau mál? Er það ekki með eflingu almenningssamgangna? Hér erum við með höfuðborgarpakka og meira en helmingur af því fjármagni sem fer í hann fer í almenningssamgöngur og aðrar virkar samgöngur. Þetta eru stórtíðindi. Setjumst niður og finnum út úr því (Forseti hringir.) hvernig við gerum þetta best. Það skulum við svo sannarlega gera en við skulum fagna því að vera komin hingað.