150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er tveggja ára. Tvö ár eru líka síðan formenn stjórnmálaflokkanna ákváðu að gera útlendingalöggjöfina manneskjulegri saman og huga sérstaklega að börnum og fólki í viðkvæmri stöðu. Það eru tvö ár síðan og ekkert hefur gerst. Á tveimur árum hafa þrír ráðherrar farið með málaflokkinn. Sá fyrsti skipaði að vísu þverpólitíska nefnd sem engu skilaði. Annar lagði til breytingar á lögum um útlendinga til hins verra og sá þriðji leysti upp fyrri nefnd og boðar nú nákvæmlega sams konar nefnd upp á nýtt. Stefna ríkisstjórnarinnar er einfaldlega ómannúðleg.

Það eru líka tvö ár síðan lítill drengur kom í heiminn. Hann var sóttur af lögreglu í fyrrinótt ásamt kasóléttri móður sinni og föður sínum. Þessi tveggja ára gutti horfði upp á móður sína í uppnámi. Hún fór síðan upp á spítala og var í rannsókn þar undir bláum ljósum lögreglunnar. Nú eru þau farin. Herra forseti. Getum við ekki sýnt aðeins meiri samkennd? Við getum kannski ekki tekið á móti öllum sem hingað koma en við getum a.m.k. búið til kerfi sem er sanngjarnara og mannúðlegra, kerfi þar sem viðkvæmir einstaklingar og sérstaklega börn fá að njóta vafans. Af hverju þurfum við að flytja þungaðar konur, lítil börn og fatlað fólk ítrekað úr landi án þess að þau fái sómasamlega meðferð? Við getum ekki skýlt okkur bak við lög sem við settum sjálf og heldur ekki kerfi sem við bjuggum sjálf til. Þess vegna fer ég fram á að formenn, ráðherrar og þingmenn efni núna loforðið um að breyta útlendingalögum þannig að þau verði manneskjulegri.