150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

330. mál
[17:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd á þskj. 374, 330. mál. Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ýmsum lögum á sviði neytendaverndar. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á 9. og 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/2394 frá 12. desember 2017, um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd. Miða breytingarnar að því að tryggja að stjórnvöld sem fara með framkvæmd þeirra laga sem reglugerðin tekur til hafi þær heimildir til rannsókna og framfylgdar sem 9. gr., samanber 10. gr. reglugerðarinnar, gerir kröfu um.

Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram annað frumvarp, frumvarp til laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, sem ég mæli fyrir á eftir þar sem lagt er til að umrædd reglugerð verði innleidd í heild sinni í íslenskan rétt með tilvísunaraðferð.

Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er um að ræða tillögur til breytinga á tíu lögum á sviði neytendaverndar sem varða framkvæmd sjö lögbærra yfirvalda. Þau eru Ferðamálastofa, Fjármálaeftirlitið, fjölmiðlanefnd, Lyfjastofnun, Neytendastofa, Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofa. Þær lágmarksheimildir til rannsókna sem lögbær yfirvöld skulu hafa samkvæmt reglugerðinni eru heimildir til upplýsingaöflunar, vettvangsskoðana og prufukaupa. Lágmarksheimildir til framfylgdar eru heimildir til að samþykkja bráðabirgðaráðstafanir, sáttaheimild, leiðbeiningaheimildir til að stöðva brot, heimildir til að stöðva brot í stafrænu umhverfi og sektarheimildir. Misjafnt er hvaða heimildir lögbær yfirvöld hafa nú þegar samkvæmt lögum en í frumvarpinu er lagt til að þeim verði veittar þær heimildir sem upp á vantar vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Í ljósi þess að sumar heimildir sem kveðið er á um í reglugerðinni geta verið íþyngjandi er lagt til að einungis verði unnt að beita þeim heimildum í málum sem varða neytendaverndarákvæði þeirra reglugerðartilskipana sem taldar eru í viðauka reglugerðarinnar. Þá er lagt til að heimildir Neytendastofu verði almennar þar sem stofnunin fer með framkvæmd flestra laga á sviði neytendaverndar og gegnir hlutverki miðlægrar tengiskrifstofu. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir upplýsingaskiptum vegna mála er varða brot á neytendalöggjöf yfir landamæri. Þess vegna er nauðsynlegt í ákveðnum tilfellum að setja í lög ákvæði sem heimila lögbærum yfirvöldum slík upplýsingaskipti.

Með frumvarpinu eru einnig gerðar tillögur til breytinga á eftirliti Neytendastofu á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Lagt er til að meginregla um sáttaumleitan verði tekin upp í lögin að norrænni fyrirmynd. Í meginreglunni felst að Neytendastofa skuli að jafnaði reyna að hafa áhrif á fyrirtækin með sáttaumleitan og skyldum aðgerðum og reyna að jafnaði að leysa mál með samkomulagi um úrbætur eða aðrar skuldbindingar. Af meginreglunni leiðir einnig að Neytendastofa skuli leggja almenna áherslu á að upplýsa fyrirtæki um lögin, framkvæmd þeirra og góða viðskiptahætti og eiga viðræður við viðeigandi samtök, fyrirtæki og neytendur til að stöðva eða fyrirbyggja brot á lögunum. Stefnt er að því að breytingarnar muni hafa í för með sér skilvirka nýtingu á fjármagni og mannafla stofnunarinnar og hafi fyrirbyggjandi áhrif á háttsemi fyrirtækja sem leiði til fækkunar einstakra mála sem þyrfti ella að taka upp.

Til að tryggja slíka framkvæmd er lagt til að lögfest verði ný forgangsröðunarheimild Neytendastofu og lagt til að stofnunin leggi einkum áherslu á þau mál sem brýnust þykja fyrir neytendur. Vegna breytinganna er einnig lagt til að kveðið verði á um málshöfðunarheimild þeirra sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta og möguleikann til að dæma skaðabætur eða hæfilegt endurgjald vegna brota gegn lögunum. Heimildin getur t.d. verið raunhæf þegar sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta hefur kvartað til stofnunarinnar en mál er ekki tekið til rannsóknar. Með frumvarpinu er stefnt að því að eftirlit Neytendastofu verði áþekkt því sem þekkist hjá eftirlitsstjórnvöldum í nágrannaríkjum Íslands og uppfylli betur viðmið Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um bestu starfsvenjur eftirlitsstjórnvalda.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.