150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samvinna stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

331. mál
[17:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd á þskj. 375, 331. mál. Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2017/2394, um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar nr. 2006/2004, öðlist lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í júní 2019. Reglugerðin leysir af hólmi eldri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd sem var innleidd í íslenskan rétt með lögum um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007.

Í reglugerðinni er mælt fyrir um samstarf og samræmingu aðgerða milli lögbærra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu sem bera ábyrgð á framfylgd laga á sviði neytendaverndar. Reglugerðin tekur til Evrópugerða sem tilgreindar eru í viðauka reglugerðarinnar eins og þær hafa verið innleiddar í landsrétt. Alls er um að ræða 26 Evrópugerðir sem varða tíu hérlend lög á sviði neytendaverndar.

Reglugerðin mælir fyrir um kerfi fyrir gagnkvæma aðstoð yfir landamæri. Yfirvöld geta að uppfylltum skilyrðum beðið yfirvöld annars aðildarríkis um upplýsingar og framfylgdarráðstafanir til að stöðva brot gegn lögum á sviði neytendaverndar. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um samræmt fyrirkomulag rannsókna og framfylgdar vegna svokallaðra víðtækra brota og víðtækra brota á sambandsvísu. Gert er ráð fyrir að yfirvöld tilkynni hvort öðru þegar grunur leikur á um slík brot, skiptist á upplýsingum og samræmi aðgerðir.

Samkvæmt reglugerðinni er skylt að tilnefna lögbær yfirvöld og miðlæga tengiskrifstofu í hverju landi sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar. Á grundvelli núgildandi laga hafa íslensk stjórnvöld tilnefnt Neytendastofu, Fjármálaeftirlitið, Lyfjastofnun, Samgöngustofu og fjölmiðlanefnd sem lögbær yfirvöld og var Neytendastofa jafnframt tilnefnd miðlæg tengiskrifstofa. Verði frumvarpið að lögum þarf að auki að tilnefna Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofu sem lögbær yfirvöld.

Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram annað frumvarp sem ég mælti fyrir áðan. Miðað er við breytingartillögur þess frumvarps að því að tryggja að lögbær yfirvöld hafi lágmarksheimildir til rannsókna og framfylgdar sem gerð er krafa um í reglugerðinni, en það er frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu um neytendavernd.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.