150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir mikinn vilja og góðan hug bjóst ég ekki við því að ég gæti sannfært hv. þingmann í mínu andsvari (ÞorS: Vertu ekki svona hógvær.) — kannski í einhverjum öðrum málum. Faggiltar skoðunarstofur hafa mikla reynslu af ástandsskoðun ökutækja sem var nýlega hafin á þeim tíma sem við settum þessa leyfisskyldu á, þá, árið 1994. Þau dæmi sem eru til um svik og svindl í þessum viðskiptum eru, að mér skilst, alla jafna þegar einstaklingur er að selja einstaklingi bifreið. Það sama á við á Norðurlöndum og sú milliliðalausa sala hefur aukist. Það verkefni og vandamál er þarna, alveg óháð því hvort þetta sé leyfisskylt eða ekki. Ég get ekki fallist á að hægt sé að bera saman þessa starfsemi, sérstaklega ekki við lögmenn, enda er sama hversu sterk staða neytenda getur verið í okkar samfélagi, starfsemi lögmanna er með þeim hætti að þetta eru gerólíkir geirar og erfitt að bera þá saman.

Eins og ég segi er ég þeirrar skoðunar að okkur sé óhætt að fylgja því sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Við vitum líka til þess að við erum með í löggjöfinni eftirlitið vistað hjá sýslumanni en það má alveg segja að það eftirlit sé ekki mjög virkt, enda hafa ekki fylgt því nægir fjármunir. Ég geng bara hreint til verks og segi: Annaðhvort ætlum við þá að stórauka eftirlitið, setja í það fjármuni, auka þá gjaldtöku og flækja verklagið enn frekar, það skilar sér þá í kostnaði hjá neytendum, (Forseti hringir.) eða að fella þetta brott og treysta því að almenn löggjöf grípi þar sem grípa þarf og mitt mat er að það dugi.