150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur ekki lagt mér þau orð í munn að ég hafi á einhvern hátt með þessum orðum gert lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 né öðrum þeim þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar hafa verið. (Gripið fram í.) Það sem ég var að segja, og er nokkuð skýrt ef maður hlustar eftir orðanna hljóðan, er að þetta er önnur aðferðafræði en þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld nýti fjölbreytta aðferðafræði við að leita eftir samráði við almenning. Ég hefði haldið að hv. þingmenn væru mér sammála um það.

Það eru sjö ár liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og síðan þá hafa 25.000–30.000 manns bæst á kjörskrá á Íslandi og eru farnir að taka þátt í stjórnmálalífinu. Þegar við hófum þessa heildarendurskoðun á nýjan leik í byrjun kjörtímabils með þátttöku allra flokka á Alþingi voru allir sammála um að mikilvægt væri að virkja almenning til samráðs, þar með talið flokkur hv. þingmanns. Hv. þingmaður spyr: Hefur almenningur trú á þessu? Þarna mættu hátt á þriðja hundrað manns, ég hef ekki nákvæma tölu, til að taka þátt í þessu verkefni, heila helgi. Það fólk hefur trú á þessu. Það svarar held ég líka spurningu hv. þingmanns.