150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í texta eftir Stuðmenn segir, með leyfi forseta: „Við í sirkus Geira Smart trúum því að hvítt sé svart.“ Mér fannst það eiginlega stinga í augun sem ráðherra sagði hér. Það kemur nefnilega fram hversu vel sé búið um þetta af því að þetta verði fært yfir óbreytt. Ég var einmitt að gagnrýna að þetta færi yfir óbreytt. Ég var að gagnrýna að menn skyldu ekki taka til hendinni þegar þeir eru að breyta lögum og reyna að gera frumvarpið almennilega úr garði. Það getur svo sem vel verið að ráðuneyti hæstv. ráðherra og kannski fleiri ráðuneyti treysti á það að almennir borgarar lesi mál í samráðsgáttinni og reyni að leiðrétta vitleysurnar sem ráðherrarnir og fylgisveinar þeirra eru að gera og vinna í ráðuneytunum. Það getur vel verið. Mér finnst alveg óþarfi af ráðherranum að benda sérstaklega á að málið hafi verið í samráðsgáttinni og enginn hafi kvakað. Það er kannski ekki mælikvarði á það að málið sé svona gott.

Ég get hins vegar bent hæstv. ráðherra á það að vilji hann og ráðuneyti hans í alvöru gaumgæfa það mál sem ég hef hér fært fram og þann galla sem mér finnst á frumvarpinu að þessu leyti, myndi ég ráðleggja hæstv. ráðherra að hafa samband við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem deila þessum áhyggjum mínum, veit ég. Hann gæti líka talað við öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem ég veit að deilir þessum áhyggjum með mér og fleirum. Ef hæstv. ráðherra og fylgisveinar hans vilja fá góða leiðsögn í þessu máli, faglega leiðsögn frá fólki sem veit og kann og vinnur við þetta og hefur reynslu, þá gæti hann byrjað t.d. hjá þessum tveimur stéttum. Það er einmitt mergurinn málsins og það sem ég gagnrýndi, þ.e. að ástandið á að vera óbreytt þrátt fyrir sameininguna. Það gerist ekkert.