150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég óttast þessa klásúlu um nálægð við almenningssamgöngur. Þar gæti íbúðaverð eða byggingarkostnaður orðið miklu dýrari, það yrði dýrara byggingarland. Við vitum að við þéttingu byggðar hefur verið sýnt fram á að það að byggja við einhverja ákveðna línu veldur verðhækkun upp úr öllu valdi og það er óvíst hvernig það á að ganga upp. Ég sé það eiginlega ekki einu sinni fyrir mér. Ég segi fyrir mitt leyti að þarna eigum við að finna hagstæðasta kostinn. Ef við horfum líka á tekjuhliðina erum við að tala um hjón með 370.000 kr. í mánaðarlaun og það er eftir að búið er að hækka upp viðmiðið úr 25% í 40% Þetta þrengir rosalega að mörgu fólki vegna þess að tveir einstaklingar sem eru með 400.000 komast ekki inn í þetta kerfi. Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum getum við búið til þannig kerfi að það getur munað nokkrum krónum eða aurum á því hvort viðkomandi geti fengið hagstætt leiguhúsnæði eða ekki, fengið að vera í svona kerfi? Ég myndi halda að það væri miklu nær að sem flestir þeirra sem vilja gætu komist inn í þetta kerfi og ég skil ekki þessi takmörk. Þarna getum við verið að leika okkur með nokkrar krónur til eða frá.