150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[17:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að áhyggjur mínar af þessu máli komi úr öfugri átt miðað við fyrra andsvar. Þegar verið er að hækka viðmiðunarmörkin upp í 40% af reglulegum heildarlaunum fullvinnandi einstaklinga erum við komin í ansi stóran viðmiðunarhóp sem þar gæti fallið undir. Fyrsta spurningin er: Er það heppilegt fyrir verðmyndun á húsnæðismarkaði að við séum með jafn viðamikla niðurgreiðslu ríkisins á byggingarkostnaði? Það getur skekkt verulega áhrifin inn á hinn almenna húsnæðismarkað sem er, vænti ég, áfram ætlað að standa undir þorra af húsnæðisþörf almennings, enda væri það orðið mjög furðulegt ástand á húsnæðismarkaði hér ef við þyrftum að niðurgreiða meira en helming húsnæðis fyrir landsmenn. Það getur ekki verið heppilegt framtíðarfyrirkomulag, þá er eitthvað annað að í því kerfi.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir eitthvert mat á því hversu stór hópur getur verið þarna undir og hver væri þá húsnæðisþörf þess hóps? Hversu margar íbúðir þurfum við að byggja til að mæta þessum viðmiðum? Í þessu umfangi getur þetta haft veruleg áhrif. Við höfum rætt hér fyrr í málinu um hve gagnsæi er mikilvægt á húsnæðismarkaði og þörf á því, varðandi vænt framboð húsnæðis og eftirspurn, að við séum með skýra sýn fyrir hinn almenna húsnæðismarkað til að vinna með. Hvað þyrfti að byggja margar íbúðir til að mæta væntri eftirspurn þarna? Hve margar íbúðir á ári myndu bætast við með því að útvíkka þessi mörk úr 25% í 40%?