150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ákvörðun um að hækka bætur í fæðingarorlofsgreiðslur hefur áhrif á hegðan og við gerum okkar besta til að spá fyrir um hversu mikið fari úr Fæðingarorlofssjóði og miðað við gefnar forsendur komast menn að niðurstöðu í fjárlagagerðinni. Nú erum við sem sagt að gera upp árið og það kemur í ljós að það er meira um að foreldrar taki fæðingarorlof og það eru fleiri sem þiggja hærri greiðslur. Að þessu leytinu til hafa forsendurnar brugðist og það þykir ekki óeðlilegt að það sé tekið af varasjóðnum. Það kemur auðvitað niður á sama stað hvort þetta er tekið af varasjóði eða sem ný fjáraukalagatillaga. Hvað afkomu snertir kemur það niður á sama stað. Þetta er í raun og veru þess vegna bara umræða um það hvað eigi heima inni á varasjóði og hvað í sérstakri tillögu.

Ég held að hitt sé miklu áhugaverðari spurning, ef ég má leyfa mér að henda henni fram hér: (Forseti hringir.) Hvernig gengur að fjármagna Fæðingarorlofssjóðinn með tryggingagjaldinu sem er eyrnamerkt þessu atriði?