150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er talsvert betur að sér en ég í þessum málaflokki og ég ætla alls ekki að gera lítið úr því. Það sem ég var hins vegar að reyna að varpa ljósi á er það að við höfum öll talað fyrir því úr þessum ræðustól að afnema krónu á móti krónu skerðingar, að þær vinni gegn hagsmunum öryrkja. Þetta er það sem Öryrkjabandalagið og öryrkjar sjálfir hafa lagt áherslu á. Mig langar að gera tillögur þeirra að mínum tillögum og ætla ekkert að þykjast vita betur en þau. Mér finnst óþægilegt þegar Öryrkjabandalagið skrifar svona um frumvarp hv. þingmanns: Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir. Mér finnst óþægilegt þegar það á að vera u.þ.b. 90.000 kr. munur á örorkulífeyri og lágmarkslaunum. Mér finnst líka mjög óþægilegt þegar þið leggið til að lækka fjármuni til hjálpartækja, til endurhæfingarþjónustu, til verndaðra vinnustaða, til vinnusamninga öryrkja o.s.frv. Ég ætla ekki að þykjast vita meira (Forseti hringir.) en hv. þingmaður um einstaka bótaflokka, ég vil bara hlusta á Öryrkjabandalagið og þau eru alls ekki sátt við þetta frumvarp og það veit hv. þingmaður.