150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það var skynsamlegt að falla frá áformum um að leggja á sérstakan skatt á ferðaþjónustuna, 2,5 milljarða kr. Það var hins vegar óskynsamlegt að koma með þessar hugmyndir í upphafi fjárlagavinnunnar vegna þess að það getur og hefur örugglega skaðað greinin að einhverju leyti. Þetta er grein sem starfar í miklu alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og fréttir berast nú hratt eins og við þekkjum í dag og öll áform um skattlagningu, t.d. á ferðamenn sérstaklega við komu til landsins, geta gert það að verkum að fólk líti síður á Ísland sem áhugaverðan áfangastað, einfaldlega vegna þess að gjöld eru það há á ferðamenn þegar þeir koma til landsins og Ísland er frekar dýrt ferðamannaland. Ég þakka þó fyrir það að ríkisstjórnin sá að sér í þessum efnum (Forseti hringir.) og það verður að segjast eins og er að þessar hugmyndir voru mjög vanhugsaðar og vonandi læra menn af reynslunni.