150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar djúpu og frábæru spurningar. Staðreyndin er sú að ég hef búist við því að þeir 5.000 milljarðar sem eru núna til inni í lífeyrissjóðunum yrðu ekki stoppaðir hér og nú og vonast til þess að fólk haldi áfram að vinna í landinu, haldi áfram að borga í sjóðina. Fyrir utan það vil ég náttúrlega stokka sjóðinn upp, hafa þetta frekar gegnumstreymissjóð og gera ýmislegt annað við lífeyrissjóðakerfið heldur en gert er í dag. En það er allt önnur saga.

Hv. þingmaður talar um að vinnandi höndum á hvern lífeyrisþega eigi eftir að fækka. Þá held ég að það ætti bara að taka utan um frumvarp Flokks fólksins sem er t.d. að reyna að fækka öryrkjum án þess að fleygja þeim fyrir björg með því að gefa þeim kost á að fara út að vinna og meta starfsgetu sína sjálfir, eins og þeir eru best bærir til. Stígum aðeins út fyrir rammann og lítum heildstætt á málin í stað þess að vera alltaf eins og hamsturinn og snúast með svima í hjólinu.