150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég notaði ekki orðið óheiðarleiki áðan. Í ræðu minni talaði ég um sýndarmennsku og falskan tón. Það er falskur tónn í þessu, mjög falskur tónn. Ég er bara að bera saman þá sem unnu við rannsókn efnahagsmála fyrir hrun og þá sem sinna rannsókn efnahagsmála og efnahagsbrota í dag. Hann er kannski tífaldur og þess vegna er þetta sýndarmennska. Samfylkingin þarf ekki að hafa áhyggjur því að það mál sem var í Kveik í gær verði ekki rannsakað, að það verði fjárskortur sem hamli þeirri rannsókn. Það er sýndarmennska að biðja um 210 milljónir, það er það sem ég er að segja. Og það er líka sýndarmennska að halda því fram að verið sé að lækka veiðigjöld. Það skynja það flestir. Kannski skynja það ekki allir og Samfylkingin ætlar að stóla á að það sé nógu stór hópur sem skynji það ekki. Ég er bara að segja mína skoðun á því. Samfylkingin er algjörlega farin fram úr sér í þessari sýndarmennsku og lýðskrumi sem er annað orð yfir þetta allt saman. Ég held að ef Samfylking ætlar að lifa til lengri tíma og ekki hugsa allt til skemmri tíma sé mikilvægt fyrir Samfylkinguna að breyta málflutningi sínum í þessu máli og fleiri málum, hvort sem talað er um breytt kjör öryrkja þar sem 9 milljarða aukning hefur verið á milli ára frá 2017–2019, 9 milljarðar ári. Menn geta haft einhverja skoðun á því að það ætti að vera meira, en blekkingarnar og sýndarmennskan í þeim málum er líka komin út fyrir öll mörk. Ég gæti haldið lengi áfram með aldraða og allt þetta. Það hefur aldrei verið gert eins mikið í þeim málum og síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð. Svo koma menn hingað í ræðustól og halda einhverju öðru fram. Þetta er ekki boðlegur málflutningur.