150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er síður en svo reiður en get kannski lítið að því gert þó að ég hafi verið skapaður með frekar grimmilegan svip og hafi ekki það blíða og glaðlega yfirbragð sem einkennir yfirleitt þingmenn Framsóknarflokksins. En ég vísa því á bug að um einhverja sýndarmennsku sé að ræða. Hér er stjórnarandstöðuþingmaður að tala um hvað hann hefði viljað gera. Ég kalla það hins vegar sýndarmennsku að leggja fram stefnuskrá, fara í kosningabaráttu, tala fyrir stefnuskránni, komast svo í ríkisstjórn og gera ekkert með það. Það er sýndarmennska, hv. þingmaður, og ástæða þess að ég nefndi hv. þingmann áðan. Það er ekki rétt hjá honum að ég hafi lagt honum orð í munn. Það gerði ég ekki. Ég sagði: Hér hristir hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason hausinn og er líklega ósammála mér. Ég biðst afsökunar ef það hefur verið einskær tilviljun að hann hafi hrist hausinn yfir ræðu minni, 20 mínútna ræðu, akkúrat á því sekúndubroti sem ég lagði fram breytingartillögu um að við skoðum mjög alvarlegar ásakanir á hendur risastórs fyrirtækis sem hlýtur að vera bæði réttindamál fyrirtækisins og alger sanngirniskrafa hjá þjóðinni sem afhendir því stóran hluta af auðlind sinni. Eða hvað vill hv. þingmaður gera? Vill hann ekki rannsakað málið? Er ekki sjálfsagt mál að tryggja embættunum nægilegt fé til þess? Ég veit að herra forseti er búinn að tjá sig um þetta áður og er ekki heldur sammála. Þeir eru þá vonandi tveir í þingsal um það.