150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þá afsökunarbeiðnina ef það hefur verið fyrir einskæra tilviljun sem hann hristi hausinn á þessu sama sekúndubroti. Ég viðurkenni að ég kann ekki nema rétt undirstöðuatriðin í táknmáli en ég kann þó tvö, þegar maður nikkar og hristir hausinn. (Gripið fram í.) Sýndarmennska, hv. þingmaður, birtist þegar einstaklingurinn hefur möguleika til þess að sýna fram á að hann ætli að standa við orðin sem hann hefur látið frá sér. Stjórnarandstaðan hefur enga möguleika á því að hrinda öllum þeim aðgerðum sem hún leggur til í framkvæmd nema þá að meiri hluti þingheims samþykki breytingarnar. Ég vona að það verði gert á morgun eða föstudag. En sýndarmennska birtist langskýrast í hegðun stjórnmálaflokka sem draga upp kosningabæklinga, halda ræður, skrifar greinar, birta heimasíður með öllu því sem þeir ætla að gera ef þeir verði bara kosnir en gera svo ekkert þegar þeir eru komnir á þing (HBH: Eins og Samfylkingin …) — eins og allir stjórnmálaflokkar, hv. þingmaður. Það kveður nú svo rammt að því að fæstir muna eftir því að Framsóknarflokkurinn sé í þessari ríkisstjórn. Þess vegna einbeitti ég mér kannski fyrst og fremst að því að tala um átökin (Gripið fram í.) sem eiga sér stað milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. (Gripið fram í.)

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmenn að tala bara í ræðustól, ekki í salnum.)