150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu. Manni er brugðið og ég er verulega miður mín yfir því að við séum í þessari stöðu. Ég hef alltaf litið upp til þess dugnaðar og þeirrar elju sem við höfum séð hjá þeim Samherjamönnum, ótrúlegur baráttuvilji. Þeir hafa, eins og ég nefndi áðan, skaffað okkur þarfar krónur í þjóðarbúið. Á sama tíma hefur það líka verið í boði stjórnvalda hverju sinni og þá sérstaklega, eins og við höfum gjarnan sagt, hagsmunagæsluhópsins í Sjálfstæðisflokknum sem hefur búið til þá umgjörð utan um auðlindina okkar að hægt er að fara svona með hana. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það hvernig stendur á því að krafturinn og mátturinn varð það mikill að eitt fyrirtækja okkar, Samherji í þessu tilviki, hefur getað haslað sér völl svo víða. Það er einfaldlega út af því að það hefur haft þetta aðgengi að auðlindinni okkar án þess að þurfa að greiða hátt verð fyrir, án þess að þjóðin hafi fengið fullt verð fyrir.

Ég segi: Við verðum að stíga varlega til jarðar. Við erum búin að ganga í gegnum mikinn skell. Við misstum flugfélag sem varð gjaldþrota. Við fengum á einni nóttu fleiri hundruð manna inn á atvinnuleysisskrá. Við duttum inn í hagsveiflu. Við erum búin að týna loðnustofninum okkar, hann verður ekki veiddur í ár frekar en síðastliðið ár. Við skulum vanda okkur vegna þess að það er eftir því tekið út um allan heim hvernig við tökum á þessu máli. Einhvern tíma var byggð skjaldborg utan um fjármálaöflin hér af stjórnvöldum á meðan gjaldborgin var slegin um heimilin í landinu. Við verðum að stíga varlega til jarðar. Við verðum að slá skjaldborg utan um okkar eigin hagsmuni um leið og við viðurkennum aldrei skipulagða glæpastarfsemi eða annað slíkt sem í raun virðist vera uppi á borðum hér. Með rannsóknum og öðru slíku á allt eftir að koma betur í ljós. Við skulum bíða, við skulum reyna að vera hógvær hvað það varðar.