150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ummæli fjármálaráðherra og orðspor Íslands.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í síðustu viku skeytti hæstv. fjármálaráðherra skapi sínu á okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar og sakaði sum okkar um að skaða orðspor Íslands með ummælum um Samherjaskjölin. Á sama tíma liggja fyrir ummæli hæstv. fjármálaráðherra sjálfs varðandi meintar mútugreiðslur í Namibíu sem hann lét falla í fréttaviðtali, með leyfi forseta:

„Auðvitað er rót vandans í kannski þessu tiltekna máli veikt stjórnkerfi og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar undirrót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“

Þessi viðhorf hafa eðlilega fangað athygli heimspressunnar og m.a. er fjallað um þau í hinu víðlesna blaði The Guardian sem hefur þetta eftir hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á vefmiðli sínum.

Ég óska eftir að heyra viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þeim sjónarmiðum að meintar mútur séu fyrst og fremst Namibíumönnum sjálfum að kenna. (Fjmrh.: Það sagði ég ekki.) Er hún sammála hæstv. fjármálaráðherra? Hefur forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að ráðherra í ríkisstjórn hennar birtist umheiminum með þessi viðhorf? Endurspeglar þetta viðhorf ríkisstjórnarinnar? Ef hæstv. forsætisráðherra er ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra, hefur hún ekki áhyggjur af því að einmitt svona ummæli um fátækt þróunarríki sem er að reyna að lyfta sér upp úr örbirgð geti skaðað orðspor Íslendinga stórlega?

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að vinna gegn þeirri orðsporsáhættu sem þegar hefur skapast? Hver verða pólitísku viðbrögðin og hvaða aðgerðir hyggst forsætisráðherra leggja til?