150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ummæli fjármálaráðherra og orðspor Íslands.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að það sé mikilvægt að ég ítreki það sem kom fram í máli mínu í síðustu viku, þ.e. að málið og málavextir eins og þeir blöstu við í þessum þætti í síðustu viku eru sláandi. Ef um ræðir mútugreiðslur eru þær jafn ólöglegar í Namibíu og hér á Íslandi. Um þetta gilda alþjóðleg lög og við höfum raunar, eins og ég kom að í mínu máli í síðustu viku, þyngt refsingar vegna mútugreiðslna hér á Íslandi og gerðum það í fyrra. Það var í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hins vegar er það svo, eins og ég sagði raunar líka þá, að sé málið vaxið eins og það virðist vera minnir það mann óþægilega á hegðun gamalla nýlenduherra sem eru að nýta sér veikleika í stjórnkerfi til þess að hagnast. Það er sláandi að sjá slíka framgöngu. Ég sagði líka þá og ítreka það hér að við gerum þá kröfu til íslenskra fyrirtækja að þau fylgi lögum, hvort sem er á Íslandi eða þar sem þau starfa. Þetta mál er í réttum farvegi. Það er til rannsóknar. Það þarf að rannsaka það eins hratt og kostur er en ég tel þó að sú rannsókn muni taka tíma, hún mun kalla á samstarf milli ólíkra landa því að málið teygir sig til ýmissa landa. Okkar stofnanir munu eiga samstarf við sínar systurstofnanir erlendis og stjórnvöld munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styðja við það að þær geti sinnt rannsókninni eins og best verður á kosið.

En hvað ætlar forsætisráðherra að gera? Þannig spyr hv. þingmaður. Strax á ríkisstjórnarfundi á föstudag voru kynntar frekari aðgerðir til að herða skatteftirlit og á ríkisstjórnarfundi á morgun munum við sömuleiðis fara yfir hvað hægt er að gera til þess að standa enn betur að laga- og regluverki þannig að við munum ekki sjá slík mál endurtaka sig(Forseti hringir.) þó að auðvitað sé alltaf erfitt að koma í veg fyrir það ef einhver er staðráðinn í því að brjóta lög.