150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

traust almennings í garð sjávarútvegskerfisins.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel að Alþingi geti gert mjög margt til þess að auka traust þjóðarinnar á því að hún njóti sanngjarns skerfs af nýtingu auðlinda. Meðal annars þess vegna hef ég lagt á það mjög mikla áherslu að Alþingi komi sér saman um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég held að þjóðin, ef við getum talað um þjóðina, a.m.k. mjög stór hluti hennar, sé mér sammála um þörfina á því. Ég vil nefna það sem fyrsta og mikilvægasta skrefið sem við höfum verið að ræða hér í meira en 20 ár og ekki náð samstöðu um og ef þetta þing gæti náð saman um að setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá held ég að til mikils væri unnið. Ég held að við munum síðan eiga eftir að eiga samtal um það hversu há veiðigjöldin eigi að vera eða hvort eigi að viðhafa aðra aðferðafræði, eins og mig grunar að hv. þingmaður telji. Um það verður pólitískt deilt. Það að undirstrika þennan rétt þjóðarinnar til sameiginlegrar auðlindar sinnar, sem því miður virðist enn vera umdeildur af einhverjum, held ég að væri mikilvægasta skrefið sem Alþingi gæti stigið á kjörtímabilinu til að undirstrika (Forseti hringir.) að þjóðin á að fá sanngjarnan skerf af nýtingu auðlinda.