150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

Landsvirkjun.

[15:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í ljósi þeirrar ræðu sem var haldin á undan mér langar mig bara til að vekja upp gamla hugmynd sem hefur komið upp af og til í viðræðum við virðulegan forseta og það er að lengja liðinn störf þingsins. Það er greinilegt að þingmenn hafa stundum eitthvað fram að færa hér í pontu sem þeir koma ekki að í þeim málefnum sem eru til umræðu hverju sinni og þá er hætt við því að þeir fari að nýta þennan lið til að koma málum sínum á framfæri. Þótt það sé almennt kannski ekki góður bragur á því skil ég afskaplega vel tilhneiginguna og þörfina á því að tjá sig um eitthvað annað en það sem er á dagskrá hverju sinni.

Mig langar að skilja þá tillögu eftir hjá virðulegum forseta að við notum liðinn störf þingsins meira, að við fáum fleiri slíkar ræður og oftar, helst daglega, en auðvitað veit ég að það eru takmörk í sólarhringnum hjá virðulegum forseta og þingmönnum eins og öllum öðrum.