150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs, eins og hann er nefndur hér með vísan í Íbúðalánasjóð, vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Í júní 2018 sendi stjórn Íbúðalánasjóðs félags- og jafnréttismálaráðherra bréf þar sem vakin var athygli á vanda Íbúðalánasjóðs. Félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði í september 2018 starfshóp sem ætlað var að leggja fram tillögur að leiðum til að draga úr áhættu ríkisins vegna uppsafnaðs vanda sem einkum var til kominn vegna stóraukinna uppgreiðslna lána hjá Íbúðalánasjóði. Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs var orðinn neikvæður og því fyrirliggjandi að afkoma sjóðsins yrði neikvæð sem gæti reynt á ríkisábyrgðina á skuldbindingum sjóðsins.

Hópurinn skilaði tillögu í lok mars 2019 um að Íbúðalánasjóði yrði skipt upp og sá hluti starfsemi sjóðsins sem snýr að fjármálaumsýslu vegna eldra lánasafns sjóðsins yrði skilinn frá meginstarfsemi stofnunarinnar. Benti starfshópurinn á að hlutverk Íbúðalánasjóðs hefði tekið miklum breytingum á síðustu árum með breytingum á lögum um húsnæðismál. Þannig fari sjóðurinn nú með stefnumótun og rannsóknir á húsnæðismarkaði, hafi umsjón með opinberum húsnæðisstuðningi og veitingu félagslegra húsnæðislána. Með uppskiptingu yrði til öflug húsnæðisstofnun sem gegndi lykilhlutverki á húsnæðismarkaði, færi með framkvæmd og samhæfingu húsnæðismála um land allt, auk þess að verða öflugur samstarfsaðili fyrir sveitarfélögin í landinu í tengslum við áætlunargerð þeirra í húsnæðismálum. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 26. mars 2019 tillögu félags- og barnamálaráðherra um uppskiptingu Íbúðalánasjóðs á grundvelli tillagna starfshópsins.

Í frumvarpi til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru gerðar tillögur um að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði skipt upp. Uppskiptingin endurspeglar starfsþáttagreiningu Íbúðalánasjóðs sem m.a. birtist í ársreikningi hans fyrir árið 2018. Samkvæmt ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs um bókhaldslegan aðskilnað er sjóðnum þar skipt upp í tvo starfsþætti þar sem markmiðið var að aðskilja sérstaklega eldri lánastarfsemi og fjárstýringu frá annarri starfsemi sjóðsins.

Sjóðnum er þannig skipt í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annars vegar, en undir það starfssvið fellur sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs sem starfræktur er í samræmi við hlutverk sjóðsins í kjölfar breytinga á lögum um húsnæðismál frá árunum 2013, 2016 og 2018 og félagslegar lánveitingar, og ÍL-sjóð hins vegar, en undir það starfssvið fellur sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs sem snýr að útgáfu skuldabréfa sjóðsins, svonefndra HFF-bréfa, eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafns, svo sem lausafjár og annarra verðbréfa. Lagt er til að ein undantekning verði gerð frá þeirri skiptingu sem miðað er við í ársreikningi Íbúðalánasjóðs 2018 þannig að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki yfir leigustarfsemi Íbúðalánasjóðs sem heyrir undir ÍL-sjóð samkvæmt starfsþáttayfirlitinu, samanber skýringu 13 í ársreikningi Íbúðalánasjóðs 2018, en þar er um að ræða starfsemi og eignir Leigufélagsins Bríetar.

Við uppskiptingu útlánasafns Íbúðalánasjóðs hefur verið unnið út frá þeirri forsendu að lán til félagslegra þarfa teljist til útlánasafns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en að öll önnur lán teljist til lánasafns ÍL-sjóðs. Einstaklingslánum er skipt á grundvelli tilgangs með lánveitingu. Uppskipting Íbúðalánasjóðs tekur mið af stærðum í ársreikningi sjóðsins 2018. Gert er ráð fyrir að ársreikningur fyrir árið 2019 myndi stofnefnahagsreikning ÍL-sjóðs. Miðað við 1. janúar 2019 nemur útlánasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 138,1 milljarði að bókfærðu virði, þ.e. sem nemur tæplega 28% af heildarsafninu. Lánasafn ÍL-sjóðs nemur 361,9 milljörðum, þ.e. 72% af heildarlánasafni.

Sem endurgjald fyrir lánasafnið sem fylgir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fær ÍL-sjóður skuldabréf frá stofnuninni. Fjárhæð innri skuldabréfa nam 125,2 milljörðum 1. janúar 2019 og eru vaxtakjör þess ákvörðuð út frá þeim vegnu virku vöxtum sem ráða tekjuinnlausn af lánasafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Hæstv. forseti. Röð atvika hefur leitt til þess vanda sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir í dag. Við stofnun Íbúðalánasjóðs fólst meginhluti lánastarfsemi hans í skiptum á fasteignaveðlánum einstaklinga og húsbréfum. Húsbréfin voru jafngreiðslubréf sem unnt var að greiða niður kæmi til uppgreiðslna á veðlánum sem stæðu á bak við húsbréfin. Afdrifarík ákvörðun var tekin um rekstur sjóðsins árið 2004 með upptöku íbúðabréfakerfisins þar sem skuldir sjóðsins voru að mestu gerðar óuppgreiðanlegar. Þessi aðgerð gerði það að verkum að sjóðurinn hafði fáa möguleika til að verjast uppgreiðslum á lánasafni sínu við breytingar á lánaumhverfi á Íslandi. Aukið framboð lána á húsnæðislánamarkaði, fyrst með auknum umsvifum bankanna á markaðnum og nú síðustu ár með auknum útlánum lífeyrissjóðanna, hefur gert það að verkum að mikið hefur verið um uppgreiðslur á eldri lánum sjóðsins. Jafnframt hafa ný útlán sjóðsins dregist verulega saman þar sem kjör sjóðsins eru ekki samkeppnishæf, m.a. vegna breyttra útlánaheimilda til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Sjóðurinn er nú með um 1–2% markaðshlutdeild nýrra útlána til einstaklinga með veði í íbúðarhúsnæði.

Vextir á íbúðalánum á markaði hafa lækkað jafnt og þétt á síðustu árum. Á sama tíma hafa útlánavextir Íbúðalánasjóðs nánast staðið í stað og því hefur hvatinn til að endurfjármagna eldri lán sjóðsins aukist og leitt af sér miklar uppgreiðslur. Uppsafnaður fjárhagsvandi Íbúðalánasjóðs lýtur því fyrst og fremst að uppgreiðslum á útlánum sjóðsins og þeim vanda sem felst í að ávaxta andvirði þeirra. Eignir utan lánasafns sjóðsins hafa vaxið jafnt og þétt á síðustu árum og námu þær um 45% af heildareignum sjóðsins um mitt þetta ár. Á þeim tímapunkti má ætla að munur á bókfærðu virði og gangvirði eigna og skulda sjóðsins sé neikvæður um 200 milljarða kr. sem yrði þá vænt tap sjóðsins hefði hann verið gerður upp á þeim tímapunkti.

Hið reiknaða tap er annars vegar til komið vegna uppgreiðslna útlána sjóðsins og uppgreiðslna sem vænta má í framtíðinni og eru ávaxtaðar á lægri vöxtum en skuldir sjóðsins bera. Vextir á markaði hafa afgerandi áhrif á afkomu Íbúðalánasjóðs og breytist gangvirði eigna og skulda um u.þ.b. 40 milljarða fyrir hver 0,5% sem ávöxtunarkrafa breytist. Menn sjá það í hendi sér hversu gríðarlegar fjárhæðir þetta eru og í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á vaxtaumhverfinu á þessu ári er auðvelt að sjá hversu mikil breyting hefur átt sér stað á áætlaðri neikvæðri stöðu sjóðsins sem ég vék að áðan. Þetta eru u.þ.b. 40 milljarðar fyrir hver 0,5% sem ávöxtunarkrafan breytist.

Stór hluti eigna utan lánasafns er skráð skuldabréf, bæði skuldabréf ríkissjóðs og sértryggð skuldabréf bankanna. Virði þeirra eigna tekur mið af markaðsvirði á hverjum tíma og sveiflast með breytingum á vaxtastigi. Að sama skapi eru útistandandi skuldir sjóðsins skráðar og virði þeirra tekur einnig mið af vaxtastigi á hverjum tíma. Virkir vextir skulda sjóðsins eru 4,34% en ávöxtunarkrafa á markaði í lok júní var 0,94–1,08%. Sem dæmi má nefna var HFF 34 með ávöxtunarkröfu í lok júnímánaðar sem nam 0,94%. Væri bréfið keypt á markaði þyrfti að greiða 121,9 millj. kr. fyrir hverjar 100 millj. kr. nafnverðseiningar.

Frekari lækkun vaxta eykur yfirverð og þar með vænt tap ríkissjóðs. Að sama skapi myndi hækkun vaxtastigs draga úr misvægi á bókfærðu virði og gangvirði og þar með áhættu ríkissjóðs. Vegna þess hversu miklar uppgreiðslur eru nú þegar orðnar, og þar með eignir Íbúðalánasjóðs utan lánasafns, hefur ávöxtun þess fjár mun meiri áhrif á endanlegt tap en hversu hraðar uppgreiðslur verða á þeim lánum sem eftir standa.

Samkvæmt grunnsviðsmynd sem sjóðurinn gerði stendur greiðsluflæði eigna undir greiðsluflæði skulda fram til ársins 2034 en þá þyrfti ríkissjóður að leggja honum til frekara fjármagn. Það kæmi til viðbótar þeim 52 milljörðum sem ríkissjóður þurfti að leggja til sjóðsins á árunum 2012–2014 vegna rekstrarvanda hans til að styrkja eiginfjárhlutfall hans sem var þá komið undir lögboðið lágmark.

Þrátt fyrir að munur á bókfærðu virði og gangvirði eigna og skulda sjóðsins sé neikvæður um 200 milljarða kr. miðað við þær forsendur sem giltu um mitt þetta ár er ekki þar með sagt að þessi fjárhæð muni raungerast sem tap sjóðsins. Samkvæmt grunnsviðsmynd sjóðsins sem byggir á ákveðnum forsendum um uppgreiðslur er til að mynda gert ráð fyrir því að neikvæð staða verði um 140 milljarðar kr. Hækki vextir umfram núverandi vaxtastig gæti sú tala lækkað verulega. Með sama hætti gæti vandinn enn aukist haldi vextir áfram að lækka. Raunveruleg niðurstaða mun raungerast á mjög löngum tíma og er eðli máls samkvæmt erfitt að meta með hvaða hætti vaxtastig og aðrir þættir muni þróast. Þá getur markviss úrvinnsla sjóðsins dregið úr áhættu vegna núverandi stöðu hans.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra fari með stjórn ÍL-sjóðs og úrvinnslu og uppgjör eigna og skulda sjóðsins til þess að draga úr áhættu og kostnaði ríkissjóðs sem til komin er vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda sjóðsins. Ráðherra er heimilt að skipa sérstaka verkefnisstjórn sem verði honum til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs og einnig er heimilt að fela verkefnisstjórninni sérstök verkefni sem varða úrvinnsluna. Gert er ráð fyrir því að verkefnisstjórnin verði skipuð einstaklingum sem hafa til þess nauðsynlega menntun, þekkingu og reynslu. Ráðherra ákveður þóknun þeirra.

Gert er ráð fyrir að daglegur rekstur verði hóflegur að umfangi og að kostnaður vegna rekstrar og umsýslu eigna og skulda greiðist af tekjum eða eigin fé sjóðsins. Kostnaðurinn gæti t.d. falist í þóknun til verkefnisstjórnar, öðrum kostnaði við rekstur og greiðslum til aðila, m.a. Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, vegna vörslu og umsýslu eigna. Um mitt ár 2019 nam fjárhæð þeirra eigna og skulda sem gert er ráð fyrir að færist til ÍL-sjóðs annars vegar 719 milljörðum kr. og hins vegar 714 milljörðum kr. Stærstur hluti skulda sjóðsins er útgefin skuldabréf Íbúðalánasjóðs, svonefnd HFF-bréf. Eignasafni ÍL-sjóðs má skipta í fimm þætti: útlánasafn, skuldabréf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út til að greiða fyrir félagsleg húsnæðislán, ríkisskuldabréf, sértryggð skuldabréf og ýmsar lausafjáreignir, þar með taldar innstæður.

Lagt er til að heimilt verði að fela öðrum aðilum umsýslu lánasafns sjóðsins og er gert ráð fyrir, ef frumvarpið verður að lögum, að samið verði við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að stofnunin þjónusti áfram lánasafn ÍL-sjóðs eftir gildistöku laganna. Þannig er tryggt að allir lántakar sem hafa tekið lán hjá Íbúðalánasjóði verði jafnsettir bæði hvað varðar réttindi og þjónustu, hvort sem lán þeirra verða áfram í ÍL-sjóði eða verða flutt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Til að tryggja jafnræði enn frekar er lagt til að ÍL-sjóður hafi sambærilegar heimildir til afskrifta og beitingar greiðsluerfiðleikaúrræða og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og að hægt verði að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um húsnæðismál til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Einnig er lagt til að lögfest verði sérstök heimild til þess að ráðstafa lausafé og öðrum eignum sjóðsins. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verði nánar á um framkvæmdaratriði, m.a. um áhættuvilja og -stýringu sjóðsins, eignastýringu, eftirlit og upplýsingagjöf, auk hlutverks verkefnisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.