150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

rannsókn Samherjamálsins.

[15:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Um það sem fer fram í mínum hugarheimi og hvort ég vilji að hann sjálfur eða við hér förum að sjá um rannsókn málsins, þá held ég að hæstv. ráðherra hafi hreinlega ekki skilið það sem ég var að reyna að segja í inngangi mínum. Ég var meira að benda á það hvernig væri staðið að rannsókninni og hvað mér hefði þótt eðlilegra og hvort það hefði ekki verið eðlilegra að reyna að koma í veg fyrir að rannsóknarhagsmunum væri spillt með því að ganga ekki eins harkalega fram eins og mér þykir þetta mál kalla á, eins og það er vaxið og eðli málsins samkvæmt, og er eins eðlilegt að gera og hugsast getur.

Varðandi það sem lýtur að þessum fjárveitingum var ég líka að spyrja ráðherra um upphæðina, en hann kom fram með það sjálfur í gær að ekki stæði á því að koma með aukna fjárveitingu inn í t.d. þessi verkefni sem væru þyngjandi og aukin. Ég segi ekki annað en að miðað við alvarleika málsins held ég að það ætti að vera hafið yfir (Forseti hringir.) allan vafa hvernig við ættum að stíga niður ef við eigum ekki að líta út eins og, ég ætla ekki að segja hvað, í alþjóðasamfélaginu.