150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

fjárframlög til saksóknaraembætta.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er skapi næst að spyrja: Eru það einhverjir fleiri sem hv. þingmaður ætlar að leggja til að verði rannsakaðir? Ætlar hv. þingmaður að koma með einhvern lista yfir þá sem hann leggur til að embættið fái fjármagn til þess að rannsaka sérstaklega? Hverjir eru þá á þeim lista? Það liggur nákvæmlega ekkert fyrir annað en að embættin munu fá fjárheimildir til að sinna verkefnum sínum eins og eftir er kallað. En hv. þingmanni finnst eðlilegt að tiltaka ákveðna rannsókn og að Alþingi segi: Gjörið svo vel, takið við þessu og farið nú og rannsakið þennan aðila þarna. Ég er þeirrar skoðunar að embættin eigi að vera sjálfstæð og taka sjálfstæðar ákvarðanir um upphaf og endi rannsókna, um ákærumeðferð o.s.frv. Hv. þingmenn eru nefnilega komnir út á mjög hálan ís í þingsal þegar þeir kalla eftir því að einstaka aðilar séu teknir til rannsóknar eins og annar hv. þingmaður gerði fyrr í dag, kallaði eftir húsleitum og haldlagningu gagna.