150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

málefni Isavia.

[15:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrirspurnina og til að spara tíma þingsins ætla ég að stela tíu sekúndum svo ég þurfi ekki að koma og verja mig hér í sérstöku svari. Í fyrri umræðu um sjávarútvegsmál vil ég biðja hv. þingmenn Viðreisnar að halda því ekki fram að stefna Viðreisnar og Framsóknarflokksins sé sú sama af því að hún er gjörólík (Gripið fram í.) í þeim málum.

Varðandi spurningar hv. þingmanns er líka rétt að geta þess að Isavia er félag í opinberri eigu og stjórnar með rekstrarlegum og viðskiptalegum hætti og tekur ákvarðanir á þeim grunni. Þar af leiðandi getur félagið í sjálfu sér sett upp skipulagsbreytingar án þess að bera þær undir ráðherra samgöngumála. Það hefur fyrirtækið nú gert til þess að fá betri yfirsýn yfir rekstur sinn að eigin sögn. Ég get haft efasemdir um að þetta sé besta leiðin til þess og verið með vangaveltur um hvort rétt sé að móðurfélagið sé Keflavíkurflugvöllur eða eitthvert annað móðurfélag og að samkeppnisreksturinn væri til að mynda í dótturfélagi o.s.frv. Það er hins vegar fyrirtækið sem tekur ákvarðanir sem það telur rekstrarlega réttar og síðan verður stefna ríkisvaldsins í uppbyggingu á samgönguinnviðum að samrýmast því og fyrirtækið þarf að aðlaga sig að því í ákvörðunum sínum og rekstri.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið hafi yfirstjórn og eignarhald á mikilvægum innviðum eins og Leifsstöð og öðrum þeim mikilvægu innviðum þar sem er einokun og ekki einu sinni fákeppni. Ég get líka staðfest að það eru engin áform hjá núverandi ríkisstjórn að einkavæða í Leifsstöð.