150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er meiri þvælan sem kemur fram í umræðunni. Ég kalla eftir því að forseti fari að taka einhverja stjórn á þessum fundi þar sem menn komast upp með að saka ráðherra um lögbrot, þar sem menn biðja um orðið um fundarstjórn forseta en fara um víðan völl. Stofnanir undir fjármálaráðuneytinu hafa óskað eftir viðbótarfjármagni út af álagi sem kemur fram á árinu 2019. 30.000 skjöl eru komin í fangið á þessum stofnunum. Við höfum sagt að við getum mætt því með varasjóðum málaflokka, vegna ársins 2020 eigum við uppsafnaðar heimildir sem geta færst á milli ára, ráðherrar geta fært fjármuni milli málaflokka, ef menn hafa lesið lögin. Og talandi um að ekki sé hægt að bregðast við með öðrum hætti er ekki verið að vísa til þess, hv. þingmenn sem vísa í lögin eins og þeir séu sérstakir sérfræðingar um þau, að menn hefðu getað reddað sér með fjárheimild (Forseti hringir.) í fjárlögum. Að sjálfsögðu er ekki verið að vísa til þess heldur að það séu engin önnur úrræði, nefnilega varasjóðir (Forseti hringir.) eða tilfærsla á fjármunum milli málaflokka sem hefðu getað komið til hjálpar. (Forseti hringir.) Ég vísa öllum orðum um rangtúlkun á lögunum til föðurhúsanna.