150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kvaddi sér hljóðs til að bera af sér sakir um að ráðuneytið eða hann, eða hvernig sem maður myndi vilja orða það, hefði brotið lög þegar kemur að opinberum fjármálum. Þess vegna er eðlilegt að það sé rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta. Mér finnst fáránlegt að gerðar séu athugasemdir við það. Málið varðar það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði bæði um fundarstjórn forseta og sömuleiðis í svari sínu áðan við hv. þingmann.

Það er ekkert nýtt að hér sé talað um að lög um opinber fjármál séu brotin. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur margoft bent á það og óskað eftir því að það verði lagað. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að við setjum lög sem eru ekki virkjuð á þeim tíma sem ætlast var til. Það er ekkert nýtt við það. Það eina sem er nýtt hérna, virðulegi forseti, er þessi stanslausa krafa Sjálfstæðisflokksins um að sussa á aðra þingmenn þegar þeir fara að tala um eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn er illa við eða kemur af einhverjum ástæðum óþægilega við kaunin á henni. Það er það eina sem er nýtt í þessu.

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra verður bara að sitja undir því að rætt sé um það hvernig lögum sé framfylgt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)