150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja varðandi það sem hv. þingmaður á undan mér sagði að því miður hefur það gerst áður að orðum hafi verið beint til forseta með óviðurkvæmilegum hætti og það er ekki til eftirbreytni.

Varðandi lögin um opinber fjármál sem hafa orðið að umtalsefni í dag vil ég enn og aftur minna á — og ég hvet þingflokksformenn til að taka það upp með mér með forseta næst þegar við fundum — að það hefur staðið til að við settumst yfir lögin í stóru samráði um það, m.a. við ráðuneytin og annað, færum í gegnum það sem betur má fara, hvernig við höfum verið að framkvæma þau og hvernig við viljum breyta hlutunum. Ég hef tekið undir að það er mjög mikilvægt að við gerum það vegna þess að okkur greinir líka á um túlkun ýmissa atriða í lögunum. Yfir það eigum við að setjast, eins og ég segi, í stóru samráði og gera það almennilega.