150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

taka ellilífeyris hjá sjómönnum.

257. mál
[17:49]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hann spyr hvort kannað hafi verið hversu margir sjómenn nýti sér rétt til töku ellilífeyris á aldrinum 60–67 ára og, ef svo sé, hversu hátt hlutfall þessara einstaklinga nýti þann rétt að hefja töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar getur sá sem hefur stundað sjómennsku á lögskráðu íslensku skipi eða skipi gerðu út af íslenskum aðilum í 25 ár eða lengur átt rétt á ellilífeyri frá 60 ára aldri sem í daglegu tali nefnist sjómannalífeyrir. Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd lífeyristrygginga, almannatrygginga og annarra málefna sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Við vinnslu svars við þessari fyrirspurn var leitað upplýsinga hjá stofnuninni um svör við þeim spurningum sem hv. þingmaður óskar svara við. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar fá nú einungis 29 einstaklingar á aldrinum 60–67 ára greiddan ellilífeyri en ef litið er til undanfarinna ára kemur í ljós að þessum einstaklingum fer stöðugt fækkandi. Þeir voru 52 á sama tíma árið 2014, fyrir einungis fimm árum. Af því má auðvitað leiða líkur, líkt og hv. þingmaður kom inn á í sinni fyrirspurn og framsöguræðu, að mjög margir séu ekki meðvitaðir um þennan rétt sinn. Ætla má að mun fleiri einstaklingar eigi þennan rétt en þarna er talið fram. Tryggingastofnun hefur hins vegar ekki neinar upplýsingar um það hversu margir eiga rétt á þessu vegna þess að hún hefur einungis upplýsingar um þá sem sótt hafa um greiðslur hjá stofnuninni þannig að það liggur ekki fyrir hver heildarfjöldi þeirra aðila er sem á rétt á umræddum greiðslum.

Ráðuneytið leitaði til Samgöngustofu sem heldur utan um lögskráningar sjómanna. Þar fengust þær upplýsingar að ekki væri unnt að ráða af lögskráningarkerfinu hvort skráðir aðilar á þessu aldursbili uppfylli nauðsynleg skilyrði almannatrygginga fyrir greiðslu ellilífeyris sjómanna. Það liggur því ekki fyrir í kerfinu hversu hátt hlutfall sjómanna nýtir þann rétt að hefja töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir 67 ára aldur. Einungis liggur fyrir fjöldinn sem nýtir sér umræddar greiðslur og eins og ég sagði áðan fá einungis 29 einstaklingar á aldrinum 60–67 ára greiddan ellilífeyri. Þeim hefur farið stöðugt fækkandi og eru nær helmingi færri nú en þeir voru fyrir fimm árum. Því má draga þá ályktun að full ástæða sé til þess að fara í einhvers konar kynningu á þessu, hver réttindi sjómanna eru þegar kemur að töku ellilífeyris. Á hvaða hendi slíkt ætti að vera, hvort það ætti að vera á hendi Tryggingastofnunar, félagsmálaráðuneytisins, eftir atvikum hagsmunasamtaka sjómanna eða í samstarfi þessara aðila, er ekki gott að segja. Þó er full ástæða til að hefja samtal um slíkt. Ég hef óskað eftir því að við förum í það og vænti góðs samstarfs við hv. þingmann í þeirri vinnu.