150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær var alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women standa að um allan heim. Ég dreif mig í ljósagöngu UN Women í tilefni dagsins sem var eins og alltaf afar fallegur viðburður. Þar kom fólk saman í kuldanum og myrkrinu til að sýna samstöðu með þolendum ofbeldis. Það er nefnilega svo, því miður, að þriðjungur allra kvenna og stúlkna í heiminum verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á ævinni. Það er tölfræði sem maður venst ekki að heyra og er alltaf jafn sláandi. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er stór hluti brota ekki tilkynntur, bæði vegna þess að í mörgum samfélögum eru brotin ekki refsiverð og eins vegna þess að þau fela í sér skömm sem ekki allir eru tilbúnir að opinbera. Ofbeldi á sér líka ýmsar birtingarmyndir, en hvort sem um er að ræða kynferðisofbeldi, valdaójafnvægi á vinnustöðum eða að ofbeldismenn misnoti kerfi til að festa konur í ofbeldissamböndum, eru allar birtingarmyndir ólíðandi.

Á Íslandi hafa hinar ýmsu vitundarvakningar orðið til þess að við hér á landi tölum opinskátt um skömmina. Umræðan í samfélaginu síðustu ár hefur m.a. orðið til þess að fólk sem hefur burðast með skömm í marga áratugi hefur getað skilað skömminni til föðurhúsanna. Þær framfarir eru ómetanlegar ef uppræta á samfélagsmein líkt og kynbundið ofbeldi, enda er þögnin eitt sterkasta vopn ofbeldismannsins. En þrátt fyrir allar þessar framfarir hér heima megum við aldrei gleyma þeim systrum okkar og bræðrum sem mega þola ofbeldi, sumir daglega. Við megum ekki sofna á verðinum.