150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála hv. þingmanni um að ég held að það séu miklir kostir við langtímaáætlunina á margan hátt. Auðvitað var markmiðið að ná fram auknum aga og ég held að það hafi náðst. Ég held að maður sjái það klárlega í gegnum þetta ferli og hvernig frumvarpið birtist frá fjármálaáætlun. Frávikin eru ekki mikil þannig að fyrirsjáanleikinn verður meiri.

Ég held reyndar líka að við þurfum á einhverjum tímapunkti að taka upp umræðu um hvað það er í þessu ferli sem við gætum bætt. Ég er pínu hugsi yfir vangaveltum um að við gerum ekki nóg eða breytum ekki nægilega miklu. Mér finnst í það minnsta það samtal sem við eigum við umsagnaraðila og hagaðila bráðnauðsynlegt fyrir þingið. Ég held að ráðuneytin taki mið af (Forseti hringir.) mjög mörgu sem við gerum tillögu að í fjármálaáætlun inn í fjárlagafrumvarp.