150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:13]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Af hverju ræðum við ekki meira stóru málin? Þannig lauk hv. þingmaður máli sínu. Þessi umræða hefur síðustu daga fyrst og fremst snúist um skattrannsóknir, lágar upphæðir í sjálfu sér, sem eru fjármagnaðar með öðrum hætti og er orðið fullljóst hverjar eru. Af hverju ræðum við ekki hér það sem raunverulega gerðist með loðnubresti, falli WOW, vandræðunum með Max-vélar, Boeing 737, Icelandair — stóra samhengið? Er hv. þingmaður sammála mér um það sem hefur verið gert? Er hann sammála Seðlabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Moody's um hversu vel hafi verið tekið á þeim efnahagsáföllum sem urðu hér fyrri part árs? Það eru stóru málin.

Hér er stór breytingartillaga sem mig langaði kannski að spyrja hv. þingmann út í. Það er verið að boða breytingartillögu upp á 38.000 milljónir, sem er sirka 4% af útgjöldum ríkisins. Það er svipað og lagt hefur verið fram í því plaggi sem er til umræðu, þar sem við leggjum til um 4%, öðrum hvorum megin við 4%, útgjaldaaukningu milli ára. Með þessu kemur annað eins. Þá hlýtur stóra spurningin að vakna: Er rétt að fara í slíka útgjaldaþenslu á vegum ríkisins þegar við eigum við ákveðinn efnahagssamdrátt, mjúka lendingu eða hvað við viljum kalla það? Er hagfræðilega rétt að fara út í slíkt? Síðan er það kannski stærsta spurningin: 38.000 milljónir — hvert ætlar hv. þingmaður að sækja þær? Hvernig á að fjármagna það?