Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt mjög mikilvægt atriði, samanburður við gamla tímann. Þar vil ég vera dálítið ósammála hv. þingmanni því hvað gagnsæi um fjárheimildir varðar þá erum við ekki ljósárum framar. Þá vitum við þingmenn hérna inni minna. (BHar: En við höfum stóru myndina.) Við höfum vissulega stóru myndina en við erum ekki að framkvæma hana á þann hátt sem á að gera til að ná því gagnsæi sem þarf til þess að við náum ljósárum betri árangri en að hugsa um einhverja hundraðþúsundkalla til eða frá, mjög gott að vera laus við það. En á þeim stað sem við erum núna þar sem við förum ekki eftir lögunum þá gagnrýni ég frumvarp til fjárlaga núna, og hef gert á undanförnum árum, af því að ég vil sjá það eins og það er sett upp í lögum um opinber fjármál. Ég sé hversu fallegt þetta gæti verið í rauninni, fjármálaáætlun og frumvarp til fjárlaga, ef við færum eftir þeim skilyrðum sem eru sett fram í lögunum. Þess vegna finnst mér svo sárt að það sé ekki einu sinni reynt. Afleiðingin af því er einmitt verra ástand en var hér áður en við settum lög um opinber fjármál varðandi gagnsæið um einstakar fjárheimildir. Þess vegna sjáum við ekki hvernig álag eða heimildir einstök stofnun fær eða einstök verkefni fá sem spanna t.d. nokkrar stofnanir.

Mér finnst þetta gríðarlega mikilvægt. Ég er mjög hlynntur uppsetningunni sem er í lögum um opinber fjármál og þess vegna gagnrýni ég svo hart að við séum ekki komin þangað. Mér finnst að öll ráðuneytin ættu algjörlega að hætta því sem þau eru að gera núna því að þau eru í raun að vinna samkvæmt gamla skipuritinu um uppbyggingu á fjárlagafrumvarpinu, finnst mér, alla vega er afurðin þannig. (Forseti hringir.) Þau verða að byrja á kostnaðar- og ábatagreiningunni, verða að byrja á stefnunni með mælikvörðunum. (Forseti hringir.) Þar byrja þau. Allt hitt kemur rosalega auðveldlega eftir það.

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)