Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020, 3. umr. Það verður víst ekki aftur snúið þegar meiri hlutinn hefur rammað inn vilja sinn og um frumvarpið hafa verið greidd atkvæði. Við vitum nú hvernig það fer, velkist enginn í vafa um það. Þetta frumvarp endurspeglar nákvæmlega það sama og þau fyrri tvö sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram, þ.e. hún ætlar ekki að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Það er alveg á hreinu. Það eru enn þá þúsundir Íslendinga sem fá útborgað langt undir 300.000 kr. í peningum. Er það sanngjarnt? Nei. Er það réttlátt? Nei. Er einhver manngæska sem felst í því að koma svona fram sína minnstu bræður og systur? Nei, það er það ekki. Það er sem sagt ekki fyrirhugað að bæta kjör þeirra lægst launuðu um nokkurn skapaðan hræranlegan hlut umfram þá lögbundnu vísitöluleiðréttingu sem á að verða á framfærslu þeirra 1. janúar 2020 um 3,5%. Lífeyrisþegum Tryggingastofnunar verður áfram haldið úti í kuldanum.

Fjármálaráðherra hefur boðað víðtækar skattalækkanir, breytingar á skattkerfinu, þriðja skattþrepið. Eigum við að líta á það? Það kostar ríkissjóð yfir 20 milljarða þegar það er komið til framkvæmda að fullu. Framkvæmdinni hefur verið flýtt um eitt ár. Nú á að framkvæma þessa skattalækkun að fullu á tveimur árum, árið 2021 verður hún komin að fullu til framkvæmda. Sem dæmi get ég nefnt það að einstaklingur sem er með 300.000 kr. á mánuði í laun mun fá rétt um 2.450 kr. á mánuði árið 2020 vegna þessara víðtæku skattbreytinga, þessa þriðja viðbótarskattþreps. Er þetta rétt forgangsröðun fjármuna, virðulegi forseti? Flokkur fólksins segir nei.

Þó að það sé afskaplega gott og góðra gjalda vert að lækka skatta þá nýtist skattalækkun þriðja skattþrepsins upp allan stigann. Ég, öryrki á ofurlaunum, fæ líka þessa skattalækkun hvort sem ég hef með hana að gera eða ekki. Það er nú ekki flóknara en það. Auðvitað er sagt að hún nýtist best þeim lægst launuðu. Auðvitað. Frábært. Af hverju ekki? Það er náttúrlega vegna þess að það hlýtur að muna þann sem er með fæstu krónurnar mestu að fá eitthvað frekar en ekki neitt.

Það er svo margt við það að athuga hvernig við stöndum að forgangsröðun fjármuna. Ég stóð nú hér ekki alls fyrir löngu í klukkutíma ræðu í 2. umr. um fjárlögin þar sem ég sagði í rauninni flest af því sem ég sagt vildi hafa, en ég ætla samt sem áður að nefna nokkra punkta, t.d. er eitt í sambandi við breytingartillögur sem gleður mig mjög. Það skiptir reyndar engu máli hvaða breytingartillögur við komum með. Það skiptir ekki einu einasta máli hvaða breytingartillögur stjórnarandstaðan kemur með, það er fellt. Það er ekki einu sinni spáð í það hvort breytingartillagan er góð eða vond, hvort hún kostar peninga eða ekki. Það skiptir engu máli. Það er bara stjórnarandstaðan sem leggur hana fram og því ber að hafna henni, því skal hún felld. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni hér á hinu háa Alþingi. Hins vegar get ég verið stolt af því að þrátt fyrir þessa meðferð á stjórnarandstöðunni hefur stjórnarandstaðan þó margsinnis greitt atkvæði með góðum tillögum og góðum verkum sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna. Ef okkur þykir það vera sanngjarnt, eðlilegt og skipta máli þá höfum við veitt þeim brautargengi. Það skiptir svo sem ekki máli hvort við gerum það eða ekki, það mun hvort sem er fara í gegn. Það skiptir engu máli en við sýnum þó alla vega viljann í verki.

Það er eitt sem mig langar að benda á sem hefur komið verulega á óvart, en það er vandi hjúkrunarheimilanna. Við höfum fengið að sjá að hjúkrunarheimili hafa verið rekin með tapi úti um allt. Fjárveitingavaldið í aukafjárlögum ársins í fyrra, fyrir jólin í fyrra, veitti 276 millj. kr. til SFV, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, til að styðja við þann halla sem hafði verið á rekstri hjúkrunarheimila. Það er skemmst frá því að segja að nú erum við að fara að loka þessum fjárlögum og þeir fjármunir hafa enn ekki verið greiddir út, ekki ein einasta króna með gati, ekki ein. Hverjar skyldu vera skýringarnar á því? Jú, hæstv. heilbrigðisráðherra segir að það hafi ekki verið samið við þau. Þau séu bara með lausa samninga og það hafi ekki verið samið við þau á meðan fulltrúar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu segja að það sé illmögulegt og ómögulegt að komast að nokkru einasta samkomulagi við Sjúkratryggingar Íslands. Það þykir bara algerlega eðlilegt og sjálfsagt eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði, miðað við alla þá samninga sem þegar hafa verið gerðir í velferðarþjónustu, þó að 10% þeirra séu ekki komnir til framkvæmda. Það er bara allt í lagi þó að út af standi, þó að það séu 20–30 samningar sem ekkert hefur verið gert í að semja, jafnvel þó að núna liggi fyrir 276 milljónir, sem ég hef ekki hugmynd um hvað verður um eftir að við erum búin að loka fjárlögum og fjárauka og öllu saman nema þær náttúrlega bara skolast út um gluggann. Það er greinilega það sem hefur átt að gerast því að annars væri búið að semja og veita fjármagnið þangað sem því var ætlað að fara og þangað sem þess er þörf.

Það er í rauninni fátt, virðulegi forseti, sem er farið að koma mér á óvart hér. Ég er stolt af því að við höfum tekið okkur saman, þrír flokkar í stjórnarandstöðu, Píratar, Samfylking og Flokkur fólksins, og lagt fram breytingartillögu sem kostar fullt af peningum sem sýnir hvernig við viljum forgangsraða peningum. Flokkur fólksins hefur ávallt sagt: Við setjum fólkið í fyrsta sæti. Áður en við reisum loftnetin og malbikum götuna þá viljum við koma fólki úr fátækt. Við viljum koma yfir það þaki, við viljum að það hafi húsnæði, við viljum að það hafi fæði og klæði og við viljum að það geti leitað sér lækninga. Það hljóta að vera grundvallarreglurnar sem við ættum að setja okkur. Við, ein af tíu ríkustu þjóðum veraldar, horfum enn upp á ótrúlega fátækt.

Ég ætla ekki að hafa þetta mjög mikið langt. Mig langar að minnast líka á furðulegheit. Við vorum mjög glöð þegar við innleiddum NPA-þjónustu, notendastýrða persónulega aðstoð, mjög glöð. En hugsið ykkur, hún er kvótastýrð, notendastýrða persónulega aðstoðin er kvótastýrð. Það fá ekki allir sem þurfa, bara þeir sem eru valdir, 90 af 130 eða 140 einstaklingum sem þurfa, fá aðstoð, hinir 40–50 fá hana ekki. Hvers vegna ekki? Það er ekki til fjármagn. Svona forgangsröðum við fjármunum hér. Svona er forgangsröðunin. Á hverjum bitnar hún? Fólkinu í landinu, þeim sem þurfa mest á því að halda að stjórnvöld sem eru valin til verksins, venjulega fjórða hvert ár, standi við það sem þau segja þegar þau lofa öllu fögru í kosningabaráttu, standi við það algerlega án þess að blikna. En allt í lagi, við skulum bíða og sjá, það fer að renna í áttina að nýrri kosningabaráttu. Það verður gaman að sjá þá hvernig loforðalistinn lítur út. En að mismuna fötluðu fólki með NPA-þjónustu er nánast síðasta sort. Við hljótum öll að geta verið sammála um það. Þegar stjórnvöld leggja það á sveitarfélögin að taka að sér þjónustu við íbúa sína og þau hafa hugsanlega ekki bolmagn til að standa við þá þjónustu sem til er ætlast af þeim eiga stjórnvöld náttúrlega að koma til móts við það, koma í veg fyrir mismunun, koma til móts við sveitarfélögin með því að styrkja þau fjárhagslega svo að allir sem þurfa þjónustu fái. Það hljóta að vera lágmarksréttindi.

Ég segi að lokum, ég ætla ekki að halda áfram, þetta er orðið gott, að við vitum hvernig það er, það skiptir engu máli hvernig við blásum hér og hvásum eins og maðurinn sagði, skiptir engu máli. Allt sem við segjum í stjórnarandstöðunni verður sópað undir teppi. Flest af þeim málum sem fara frá okkur til nefnda fáum við venjulega ekki í atkvæðagreiðslu. Núna líður að jólum. Þá byrja hrossakaupin á eyrinni, að semja um eitt og eitt mál sem við fáum hugsanlega að koma með, mæla fyrir og sem verður fellt. Frábært. Svona eru störf þingsins. Ég ætti kannski að segja þetta undir störfum þingsins, geri það kannski á morgun eða hinn.

Að lokum segi ég þetta: Stjórnvöld ætla áfram að hanga á handónýtu mannvonskukerfi sem fáir eða enginn skilur. Veikt, gamalt fólk fær ekki aðgang að hjúkrunarheimilum. Stjórnvöld skattleggja fátækt grimmt og skerða kinnroðalaust þá sem veikast standa, 12–15% barna líða hér mismikinn skort. Grunnþörfum borgaranna er ekki mætt, fólk skortir fæði, klæði og húsnæði. Viljaleysi ríkisstjórnarinnar er algjört þrátt fyrir þunga undiröldu og kröfur um aukið réttlæti til handa þeim sem eru með tekjur langt, langt undir fátæktarmörkum. Það er kaldhæðnislegt að ríkisstjórnin státar af fordæmalausa góðæri á sama tíma og hún neitar fátæku fólki um réttlæti.