150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og ég vil byrja á að segja það að ég fagna því sérstaklega að þingmaður segir hér um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar — ég get að sjálfsögðu skilið þau sjónarmið að hv. þingmaður vildi flýta því ferli — að einhver skref séu betri en engin því að ég er sammála því. Ég held að það skipti gríðarlegu máli að við náum einhverjum alvöruskrefum í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili og byggjum á þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

Hvað varðar auðlindaákvæðið er rétt að það hefur verið í samráðsferli og það er enn verið að vinna úr þeim athugasemdum sem þar bárust. Í því ákvæði sem fór inn í samráðsgáttina, sem var að sjálfsögðu rætt í hópi formanna flokkanna áður en það fór þangað, kemur fram að enginn geti fengið náttúruauðlindir Íslands til eignar eða varanlegra afnota. Ég lít svo á að setjum við þetta ákvæði inn þá myndi það vera algerlega skýrt að enginn getur fengið nýtingarheimildir eða auðlindir til varanlegra afnota né eignar. Þannig að ég tel að það felist hreinlega í því ákvæði sem við höfum þegar kynnt. Raunar tel ég svo líka vera, þar sem við ræddum hér fiskveiðistjórnarkerfið á kjörtímabilinu 2009–2013 og þá var nú harkalega tekist á um það í þessum sal, að sú leið sem þar var lögð til hafi ekki stangast á við gildandi stjórnarskrá en þar var lögð til nýtingarleyfaleið til tiltekins tíma. Ég lít svo á og er sammála formanni Framsóknarflokksins og ég tel að við séum nú flest sammála um það að auðlindir okkar í þjóðareign verða engum afhentar til eignar eða varanlegra afnota. Það ákvæði sem við settum í samráðsgáttina feli það í sér með mjög skýrum og afgerandi hætti. (Forseti hringir.) Þar er einnig kveðið á um gjaldtöku og ég kem nánar að því í mínu seinna svari.