150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hvort er mikilvægara, þegar við ræðum um stjórnarskrána okkar, þröngir flokkshagsmunir eða það verkefni að skapa sem breiðasta samstöðu um raunverulegar breytingar á stjórnarskrá? Hv. þingmaður hefur oft heyrt mig tala um þessi mál og hún veit að það er afstaða mín og sýn að við öll, ekki bara ég, því að það er ekki ég ein sem breyti stjórnarskrána, það er meiri hluti Alþingis og vonandi sem stærstur meiri hluti, að við eigum að geta hafið okkur yfir þennan vettvang dagsins sem við erum hér á þegar við tölum um stjórnarskrármálefni. Af því að hv. þingmaður nefnir ákvæði sem sett var fram vil ég nefna að þar segir beinlínis: „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota …“

Ég tel að þetta sé algjörlega skýrt en ég er reiðubúin til þess að fara yfir þetta með öllum þeim sérfræðingum sem formenn flokkanna vilja fá til að ræða túlkun þessa ákvæðis sem og hvað felst í þeirri leið sem lögð var til hvað varðar gjaldtöku (Forseti hringir.) í ákvæðinu. Við verðum líka að átta okkur á því að þegar við ræðum um ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá erum við ekki bara að tala um fisk, við erum að tala um allar auðlindir eins og hv. þingmaður þekkir, og ákvæðið þarf að rúma þær allar.