150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til lyfjalaga og er það hið besta mál en því miður er oft einfaldasta ráðið sem við höfum það að gefa lyf við ýmsum kvillum. Því miður er oft gefið of mikið af lyfjum og við vitum af því. Það brennur við að fólki er gefið of mikið af verkjalyfjum og fólki er haldið niðri á verkjalyfjum meðan það er á biðlistum eftir aðgerðum. Það er alveg skelfileg staða. Við erum að leika okkur að lífi margra einstaklinga. Lyfjamarkaðurinn þenst út, kostnaður stóreykst og þetta er oft spurning um einfaldleika vegna þess að ég held að við þurfum líka að fara að hugsa hlutina aðeins öðruvísi í þessu samhengi. Við þurfum líka að reyna að finna einfaldar aðferðir við að meðhöndla verki án þess að vera með dýr lyf sem geta valdið því að viðkomandi verði háðir þeim. Enginn veit fyrir fram hvaða lyf hann þolir og hversu veikur hann er fyrir því að þurfa að berjast við þá fíkn sem lyf geta valdið.

Það virðist vanta inn í þetta kerfi að finna nýjar leiðir. Við þenjum lyfjabáknið út og reynum oft að lækna með lyfjum þegar aðrar leiðir gætu verið miklu einfaldari. Það ætti að vera í reglugerð og vera sjálfsagður hlutur að fólk fái hreinlega sjálfkrafa, t.d. eldri borgarar, öryrkjar og láglaunafólk, kort í líkamsrækt. Oft eru gefin lyf við verkjum sem hefði verið mjög auðvelt að koma í veg fyrir. Ég get tekið einfalt dæmi af sjálfum mér, bara það að fara í heit og köld böð til skiptis hefur reynst mér það vel að ég hef minnkað verkjalyfjanotkun um 80–90%. Svona einfaldur hlutur segir okkur að við erum oft að ávísa lyfjum að óþörfu.

Annað sem ég vona að sé að breytast er að ekki verði lengur hægt að ganga milli lækna og fá ávísað sömu lyfjunum hjá mörgum læknum, það verði búinn til þannig grunnur að menn fái að vita þegar fólk er komið með of mikið af lyfjum. Þegar fólk er komið með upp undir 20 töflur á dag og þarf að taka töflur við aukaverkunum af töflum bara vegna þess að það fær ekki aðgerðir á sjúkrahúsi vegna biðlista eða annars erum við farin að bíta svolítið illa í okkur að því leyti til að þá erum við hreinlega að henda krónunni og spara aurinn.

Ég ætla ekki að hafa þessa umfjöllun öllu lengri. Ég mun fylgjast vel með gangi málsins í velferðarnefnd en það þarf að gera eitthvað í þessum málum. Þessi lyfjaiðnaður þenst of mikið út. Síðan er líka alvarlegt að það er til fólk sem neitar sér um lyf vegna þess að það hefur ekki efni á þeim. Við höfum orðið vör við að fólk er komið í skuldasúpu vegna þess að það er að reyna að lækna krabbamein. Krabbameinslyf eru dýr og bæði er þá fólk að kljást við að bjarga heilsunni og lífinu en líka að kljást við fjárhagsáhyggjur og annað sem á ekki að eiga sér stað. Við verðum líka að átta okkur á því að þegar lyf eru nauðsynleg ber okkur að sjá til þess að fólk fái þau og það án þess að það þurfi að velja á milli þess að fjárhagurinn fari í spað eða það þurfi að neita sér um lyfin. Það er með ólíkindum að staðan sé svona í okkar þjóðfélagi.