150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að áformaðar skattalækkanir, fyrst og fremst á árinu 2021, eru virðingarverðar. Ég óttast hins vegar að það kunni að reynast ríkisstjórninni mjög erfitt að standa við þær skattalækkanir, einfaldlega vegna þess að hér er að kólna í hagkerfinu. Við heyrum daglega fregnir af uppsögnum. Það er alveg augljóst að við erum enn að vinna með mjög bjartsýnar afkomuhorfur fyrir ríkissjóð á næsta ári miðað við þá þróun sem við sjáum að á sér nú stað í hagkerfinu. Þannig kann þetta að verða ríkisstjórninni mjög þungbært. Ég mun styðja hana eindregið í þeim verkefnum en teldi æskilegt að gengið yrði mun lengra.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt í umræðunni um loftslagsmál og þá grænu skatta sem við erum í auknum mæli að beita í þeim efnum og spyr hvort hv. þingmaður sé mér ekki sammála um að slíkir skattar megi ekki eingöngu vera til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, heldur hljótum við að þurfa að huga að því að lækka önnur gjöld á móti. Kannski er það stærsti vandinn við téðan urðunarskatt, að við séum einfaldlega að beita skattkerfinu fyrir okkur (Forseti hringir.) í aðgerðum í loftslagsmálum en við megum ekki líta á slíka skatta sem nettótekjuöflun fyrir ríkissjóð.