150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[17:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á að ég skyldi ekki ná að klára að svara Parísarspurningunni. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, ég held að ég hafi krotað á þetta plagg og staðfest þátttöku Íslands í því svoleiðis að auðvitað munum við vinna að markmiðum samkomulagsins. Vandinn er bara sá að þær aðferðir sem eru notaðar til þess að ná þessum markmiðum eru ekkert sérstaklega líklegar til árangurs. Það sem meira er að jafnvel þó að markmið Parísarsamkomulagsins næðust, sem væri í fyrsta skipti sem tækist að ná einhverjum af þeim markmiðum sem menn hafa sett sér, Kyoto, Ríó og allt þetta, í loftslags- og umhverfismálum, myndi það því miður hafa sáralítil áhrif. Það þarf algjörlega nýja hugsun í því hvernig við fáumst við umhverfismálin. Lausnin er ekki refsiskattar á fólk fyrir að lifa lífi sínu. Lausnin felst í jákvæðum hvötum, í vísindum, tækni. Rétt eins og menn leystu á síðustu öld hinn stórkostlegu mengunarvandamál stórborga og m.a. hér í Reykjavík var mengun, stórkostlegt vandamál. Rétt eins og menn drógu úr mengun bifreiða um 99% á innan við hálfri öld er hægt með skynsamlegum ráðstöfunum í loftslagsmálum að draga mjög verulega úr losun. En þá þurfum við að nýta þau tækifæri sem gefast, ekki ráðast í sýndaraðgerðir eins og að moka ofan í skurði sem eykur bara losun metans sem er 23 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, heldur með aðferðum sem raunverulega virka. Ég hef mikinn áhuga á þessum málum vegna þess að ég varði nánast allri ræðu minni á fyrsta landsþingi Miðflokksins í að ræða þessi mál, loftslagsmálin og umhverfismálin, og benti þar á ýmsar lausnir. Þetta er aðgengilegt á netinu og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það.