150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sérkennileg staða að vera í andsvörum við mann sem maður er algjörlega sammála. Íslenska þjóðin hefur líka getað rifist um það sem hún er sammála um og við getum reynt að rífast eitthvað áfram um þetta. Eins og ég sagði áðan er lykilatriðið að menn skynji hvar hagsmunir almennings liggja. Þeir liggja ekki alltaf í mikilli skattheimtu. Það er alveg rétt að þetta átti að vera tímabundinn skattur og þeir hafa tilhneigingu til að vera lengi. Við erum með alls konar aðrar kröfur eins og eigið fé sem ruglar þetta allt saman. Ég tel að stjórnmálamenn sem eru sammála okkur hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þurfi að vera duglegir í því að sannfæra almenning um það hvar hagsmunirnir liggja. Þeir liggja í öflugu og samkeppnishæfu atvinnulífi. Þar eru risahagsmunir okkar sem þjóðar, þeir eru ekki í að veikja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og veikja heimilin með mikilli skattheimtu af því að þá fáum við svo mikið í sameiginlegu sjóðina okkar. Þetta er risaverk að vinna vegna þess að ef maður hlustar á almenna umræðu í dag er hún einhvern veginn í aðra átt, þ.e. að atvinnulífið sé að hafa af okkur réttmætar tekjur í sameiginlega sjóði okkar.

Þarna stóla ég á hv. þm. Þorstein Víglundsson sem þekkir þessi mál á þingi sennilega betur en flestir aðrir, að hann taki til við þetta í staðinn fyrir allt hitt ruglið sem flokkurinn hans er með á þessu þingi.