150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

fundur utanríkisráðherra Íslands og Rússlands.

[15:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil hins vegar vegna þessa máls segja að ástæðan fyrir því að við tókum þátt í þessum refsiaðgerðum, sem beinast ekki gegn rússneskum almenningi heldur má segja ákveðnum einstaklingum, er mjög einföld. Hún er sú að við Íslendingar höfum alltaf verið í hópi þeirra þjóða sem leggja áherslu á að alþjóðalög séu haldin. Maður ætti ekki að þurfa að útskýra af hverju við gerum það vegna þess að við eigum allt okkar undir því að alþjóðalög séu haldin. Við erum fámenn þjóð og ef við byggjum við það umhverfi að geta ekki treyst á að lög og sáttmálar í alþjóðaumhverfinu giltu værum við í verulega erfiðum málum. Ef við brytum út af þessari reglu og stæðum ekki með vestrænum þjóðum eða þeim þjóðum sem leggja á þetta áherslu væri það gríðarlega mikil breyting á íslenskri utanríkisstefnu og myndi mjög fljótt skaða hagsmuni okkar.

Hins vegar er það rétt, eins og hv. þingmaður nefnir, að viðskiptaþvinganir sem Rússar settu á vestrænar þjóðir komu einstaklega illa við okkur. Í ofanálag hafa líka verið vandræði við að fá leyfi fyrir ýmis matvæli, að komast í gegnum matvælaeftirlitið í Rússlandi. Þetta er nokkuð sem ég ræddi við starfsbróður minn á mjög góðum fundi. Ég hef unnið að því að reyna að leysa úr þessum málum og hef ekkert legið á þeirri skoðun minni að mér finnst gagnaðgerðir Rússa ekki sanngjarnar. Hvað mun koma út úr því á eftir að koma í ljós. Ég mun bara halda áfram að vinna að þessu hagsmunamáli okkar (Forseti hringir.) eins og öðrum. Ég get ekki lofað neinu á þessu stigi en málin hafa örugglega ekki versnað við þennan fund sem ég átti með starfsbróður mínum.