150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

umsóknir um starf útvarpsstjóra.

[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gagnlega spurningu og spurningu sem margir spyrja sig. Formlegur vettvangur málsins er hjá stjórn RÚV. Ég hef hins vegar sem ráðherra fjölmiðla í landinu sent stjórn RÚV bréf þess efnis þar sem ég óska eftir skýringum á því hvernig standi á því að það ríki ekki fullt gagnsæi um listann. Ég tel að það sé mjög eðlilegt, sér í lagi þar sem fólkinu í landinu er mjög hlýtt til RÚV, og mér finnst að það eigi að ríkja fullt gagnsæi er varðar þetta ferli.

Hinn 28. nóvember sendi ég stjórn RÚV bréf þess efnis þar sem ég óska eftir skýringum og hef ítrekað óskað eftir þeim og bíð eftir að fá frekari skýringar og það mál er í vinnslu. En ég vil líka taka það fram, virðulegur forseti, að formlegur vettvangur málsins er hjá stjórninni. Við ættum kannski frekar að spyrja okkur að því: Erum við sátt við það hvernig þeim málum er háttað? Ef ekki, er það okkar að breyta lögunum. Ég fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar og hversu afdráttarlaus hún er og hef í hyggju að fylgja henni eftir með þeim aðgerðum sem eru viðeigandi.