150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um svokallað Guðmundar- og Geirfinnsmál, heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar. Af því tilefni vil ég árétta þá afstöðu Miðflokksins í málinu að þetta mál eigi ekki á þessu stigi heima í sölum Alþingis. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi núna, samningar og ákvörðun um bótaskyldu og bótafjárhæð, er það tvímælalaust verkefni viðkomandi stjórnvalda sem sinna samningum fyrir ríkisvaldið og dómstóla ef ekki semst um. Á meðan þau mál hafa ekki hlotið afgreiðslu á þeim vettvangi og niðurstaða liggur ekki fyrir á málið ekki erindi á Alþingi. Miðflokkurinn telur skylt að horfa til þrígreiningar ríkisvaldsins samkvæmt stjórnarskránni, að ein grein ríkisvaldsins gangi ekki inn á verksvið annarrar. Hitt ber þó ekki að útiloka, herra forseti, að málið komi á dagskrá eftir að dómstólar hafa komist að niðurstöðu ef svo ber undir, en það er þeirrar tíðar mál.